„Þetta er einkastæði!“

Íbúinn vildi ekki ljá lögreglunni einkastæði sitt.
Íbúinn vildi ekki ljá lögreglunni einkastæði sitt. Ljósmynd/Lögreglan í Surrey

Önugur íbúi í Surrey-sýslu í Bretlandi brást heldur illa við þegar lögreglubíl var lagt í bílastæði hans fyrir skömmu og sá sig knúinn til að skilja eftir skilaboð við bílinn.

„Athugið!! Leggið lögreglubílnum ykkar fyrir utan, þetta er einkastæði!!“ skrifaði hann.

Þegar lögreglan sneri aftur að bílnum og útskýrði fyrir manninum að um neyðartilfelli hafi verið að ræða sagði hann að honum stæði á sama, enda væri þetta ekki hans neyðartilfelli. Lögreglan hafði verið að bregðast við útkalli vegna gruns um líkamsárás.

Lögreglan í Surrey deildi atvikinu með fylgjendum á Facebook. „Við biðjumst afsökunar á að hafa lagt bílnum þarna í tillitsleysi í útkalli sem gæti hafa snúist um líf eða dauða.“

Facebook-færslunni hefur verið deilt hátt í þúsund sinnum og er almenningur bálreiður samborgara sínum sem virðist hafa litla samúð með starfi lögreglunnar. Einhverjir vildu að maðurinn yrði sóttur til saka á meðan aðrir sögðu lögregluna mega leggja í sitt stæði hvenær sem er, og að þeim yrði boðið te og kaffi eftir tilvikum.

Lögreglan í Surrey ætlar hins vegar ekki að grípa til aðgerða gagnvart eiganda bílastæðisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert