Árás við lögreglustöð í Brussel

AFP

Lögreglumaður særðist þegar maður vopnaður hnífi réðst á hann fyrir utan höfuðstöðvar lögreglunnar í Brussel snemma í morgun.

Að sögn lögreglu var árásin gerð klukkan 5:30 að staðartíma og særði annar lögreglumaður árásarmanninn með því að skjóta að honum. Hvorki lögreglumaðurinn né árásarmaðurinn eru með alvarlega áverka.

Lögreglan vill ekki staðfesta fréttir belgískra fjölmiðla um að árásarmaðurinn hafi kallað Guð er máttugur á arabísku þegar hann framdi árásina. 

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, er í opinberri heimsókn í Brussel en síðar í dag mun hann heimsækja Molenbeek-hverfið þaðan sem árásarmennirnir komu sem frömdu ódæðið sem kostaði 130 manns lífið í París fyrir þremur árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert