Námslán að sliga Bandaríkjamenn

AFP

Gjöf fyrrverandi borgarstjóra New York borgar, Michael Bloomberg, upp á 1,8 milljarða Bandaríkjadala, til nemenda Johns Hopkins-háskólans beinir kastljósinu að vandamáli sem herjar á milljónir Bandaríkjamanna. Byrðar námslána sem hvíla á herðum þeirra í mörg ár eftir útskrift.

Samkvæmt upplýsingum frá bandaríska menntamálaráðuneytinu voru 42,2 milljónir Bandaríkjamanna að greiða niður námslán sín í lok júní og nemur heildarfjárhæðin 1,5 milljónum milljóna (trillion á ensku). Koma námslán næst á eftir húsnæðislánum þegar kemur að skuldasöfnun í Bandaríkjunum.

Bloomberg sagði að gjöfinni væri ætlað að aðstoða námsmenn frá fátækum og millistéttarheimilum við að komast í háskólanám og benti á að skólagjöld við virta háskóla í Bandaríkjunum nemi oft um 50 þúsund Bandaríkjadölum á ári, eða sem svarar til 6,2 milljóna króna. Þetta séu einfaldlega of háar fjárhæðir fyrir flestar fjölskyldur að ráða við.

Rektor Johns Hopkins-háskólans, Ronald Daniels, segir að gjöfin þýði að skólinn geti tekið við mun fleiri hæfum nemendum frá fátækari fjölskyldum en áður. En talið er að aldrei áður hafi viðlíka gjöf verið gefin þegar kemur að fjárhagsstuðningi við námsmenn sem hyggja á háskólanám. 

Eins og staðan er í dag eru 44% nemenda í skuld þegar þeir ljúka námi við John Hopkins-háskólann sem er í Baltimore, Maryland. Að meðaltali skuldar hver þeirra yfir 24 þúsund Bandaríkjadali, sem svarar til þriggja milljóna króna.

Aðeins dropi í hafið

Í huga Sandy Baum, háskólaprófessors við Urban Institute, er gjöf Bloomberg frábær en aðeins dropi í hafið. Hún segir að gjöfin hefði haft mun meiri áhrif ef henni hafi verið ætlað að bæta gæði menntunnar fleiri nemenda í skólum sem ekki teljast til „elítunnar“. Segir hún opinbera skóla standa höllum fæti vegna skorts á rekstrarfé.

Baum er ekki á móti námslánum því hún segir að fyrir flesta sé þetta val á milli þess að komast í háskóla með því að taka námslán eða einfaldlega að hafa ekki ráð á því að stunda nám.

Hún segir að flestir taki námslán fyrir 15-20 þúsund dali en ekki sé óalgengt að lánsfjárhæðin sé komin í 40 þúsund dali þegar bakkalár-gráðu (bachelor-degree) er náð að loknu fjögurra ára háskólanámi. 

Áætlanir menntamálaráðuneytisins gera ráð fyrir að meðalkostnaður við fjögurra ára háskólanám í einkaskóla nemi 34.740 dölum, sem svarar til 4,3 milljóna króna. En inni í þeirri fjárhæð er ekki tekið tillit til húsnæðis og framfærslukostnaðar. Margir námsmenn taka lán frá alríkisstjórninni eða einkafjármálafyrirtækjum til þess að standa straum af þeim liðum. 

Ef viðkomandi nær ekki að standa í skilum þá blasir við að lenda á svörtum lista hjá lánastofnunum sem þýðir að viðkomandi getur ekki fengið greiðslukort, ekki verið á leigumarkaði né keypt bíl. 

Námslánavandinn veldur mörgum áhyggjum, þar á meðal Seðlabanka Bandaríkjanna sem hefur varað við afleiðingum þessa. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert