Prestur eyddi sóknarfénu í netsvik

Presturinn hafði stolið 120.000 evrum úr sjóðum safnaðarins. Hann játaði …
Presturinn hafði stolið 120.000 evrum úr sjóðum safnaðarins. Hann játaði brot sitt fyrir söfnuðinum við messu. AFP

Kaþólskur prestur í Þýskalandi hefur viðurkennt að hafa eytt sóknarfénu í svikamyllu á netinu þar sem honum var heitið skjótum hagnaði.

Talsmaður biskupsdæmisins greindi frá þessu í gær, en presturinn sem var hjá söfnuði í Harz-héraði játaði brot sitt fyrir söfnuðinum við messu í gær. Hann hafði þá stolið 120.000 evrum úr sjóðum safnaðarins.

„Ég lét blekkjast af netþrjótum,“ sem héldu úti svindlhappadrætti,“ sagði presturinn. „Þeir sannfærðu mig um að senda sér fé nokkrum sinnum.“ Sagði talsmaðurinn að presturinn hefði gefið sig fram við lögregluyfirvöld og biskupinn Gerhard Feige.

Prestinum verður gert að greiða til baka féð sem hann stal og tapaði og sætta sig við afleiðingar dóms kirkju og ríkis, sagði Feige.

Hefur presturinn nú verið rekinn úr stjórn sóknarinnar, en sóknarnefnd ákvað að ekki yrði gripið til frekari aðgerða gegn honum að sinni. Ekki liggur hins vegar enn fyrir hvort hann verði sviptur hempunni, en sú ákvörðun liggur hjá sóknarnefndinni að fenginni tillögu frá biskupi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert