Doktorsnemi fær lífstíðardóm fyrir njósnir

Matthew Hedges með eiginkonu sinni Danielu Tejada.
Matthew Hedges með eiginkonu sinni Danielu Tejada. AFP

Breskur doktorsnemi hefur verið dæmdur til lífstíðarfangelsisvistar í Sameinuð arabísku furstadæmunum fyrir njósnir.

Háskólaneminn,  Matthew Hedges, sem var að vinna að doktorsritgerð sinni við háskólann í Durham, neitar ásökununum og segist hafa verið við rannsóknarstörf þegar hann var handtekinn í Dubai í maí á þessu ári. Doktorsritgerð Hedges fjallar um innan- og utanríkisöryggisstefnu yfirvalda í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í kjölfar arabíska vorsins.

BBC segir dómstól í Abu Dhabi hafa komist að þeirri niðurstöðu að Hedges væri sekur um að stunda njósnir fyrir bresk yfirvöld. Hefur Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands,  sagst vera „vonsvikinn“ með niðurstöðu dómsins.

AFP-fréttastofan segir dómsuppkvaðninguna hafa tekið fimm mínútur og að lögfræðingur Hedges hafi ekki verið viðstaddur.

Daniela Tejada, eiginkona Hedges, sem var viðstödd dómsuppkvaðninguna segist vera í „algjöru áfalli“. „Matthew er saklaus. Utanríkisráðuneytið veit það og hefur komið því skýrt til skila til yfirvalda í Sameinuðu arabísku furstadæmunum að Matthew er ekki njósnari fyrir þá,“ hefur BBC eftir Tejada.

„Frá byrjun hefur verið tekið ömurlega á þessu máli og enginn hefur tekið mál Matthews alvarlega.“

Sagði hún bresk stjórnvöld verða að bregðast við núna og yfirvöld í Sameinuð arabísku furstadæmunum „ættu að skamma sín fyrir jafn augljóst óréttlæti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert