Fékk skotsár á leið í brúðkaup en kvæntist samt

Indverskt brúðkaupsband spilar hér fyrir fólk á götu í Delhi. …
Indverskt brúðkaupsband spilar hér fyrir fólk á götu í Delhi. Mynd úr safni. AFP

Brúðgumi nokkur á Indlandi lét skotárás á leið í brúðkaup sitt ekki stöðva sig frá því að fara með brúðarheitin. Atburðurinn átti sér stað í Delhi, höfuðborg Indlands, og fékk brúðguminn byssukúlu í sig. Eftir tvo tíma á spítala sneri hann aftur í brúðkaupsveisluna og athöfnin hélt áfram, þrátt fyrir að byssukúlan væri enn föst bak við herðablaðið á honum.

BBC segir lögreglu í borginni nú leita tveggja manna sem grunaðir eru um að hafa skotið á fylgdarlið brúðgumans á mánudagskvöld.

Þetta er ekki fyrsta atvikið þar sem skotum er hleypt af í tengslum við indversk brúðkaup og létu brúðgumar raunar lífið í slíkum árásum í apríl á þessu ári og árið 2016.

Segja vitni árásarmennina hafa komið á mótorhjóli. Þeir eru svo sagðir hafa klifrað upp í hestvagninn sem flutti brúðgumann og segir lögregla það benda til þess að ekki hafi verið um handahófskennda árás að ræða. Flúðu þeir síðan í ringulreiðinni sem fylgdi í kjölfar árásarinnar.  

Brúðguminn fullyrðir að árásarmennirnir hafi ætlað að drepa hann.

Lögregluforinginn Vijay Kumar segir bróður brúðgumans hafa farið með hann á sjúkrahús til aðhlynningar. Þar náðu læknar að stöðva blæðinguna, en gátu ekki fjarlægt byssukúluna án umfangsmikillar aðgerðar. Brúðguminn hélt að því loknu í brúðkaupið og fór með brúðarheitin, en sneri svo aftur á spítalann fyrir aðgerðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert