Fengu lífstíðardóm fyrir bílasprengju

Frá svæðinu þar sem bílasprengjan sprakk. 36 fórust í sprengingunni …
Frá svæðinu þar sem bílasprengjan sprakk. 36 fórust í sprengingunni og 344 særðust. AFP

Þrír voru í dag dæmdir til lífstíðarfangelsisvistar fyrir aðild að sprengjuárás í Ankara í Tyrklandi árið 2016. 36 mann fórust er bílasprengja sprakk við samgöngumiðstöð í Ankara og 344 særðust, en mikill mannfjöldi var á staðnum er árásin var gerð.

Sprengjutilræðið var önnur slík árás sem gerð var í höfuðborginni á innan við mánuði og segir tyrkneska ríkisfréttastofan Anadolu hana hafa verið hluta af röð árása sem hófust í Tyrklandi 2015 er töluverð ógn þótti stafa af vígasamtökunum Ríki íslams og aðskilnaðarsinnum Kúrda.

Sakaði dómstóllinn sakborningana um að tilheyra kúrdíska verkamannaflokkinum PKK, sem tyrknesk yfirvöld skilgreina sem hryðjuverkasamtök. TAK, sem er angi af PKK, lýsti yfir ábyrgð á árásinni.

Anadolu segir að 55 hafi verið sóttir til saka vegna sprengjuárásarinnar og hafi átta þeirra verið dæmdir að þeim fjarstöddum. Einn þeirra sem dæmdir voru í dag, Mehmet Veysi Dolasan, fékk 37 lífstíðardóma fyrir að myrða 36 manns og fyrir að skaða sameiningu ríkisins. Segir Reuters þá fanga sem fá slíka dóma búa við harkalegri aðstæður í fangelsi og að þeir eigi hvorki rétt á náðun né reynslulausn. Dolasan var aukinheldur dæmdur til 10.275 ára fangelsisvistar fyrir að gera tilraun til að myrða 342 og fyrir flutning á sprengiefni. Ekki liggur fyrir hvers vegna fjöldi særðra og þeirra sem hann var dæmdur fyrir er ekki sá sami.

Tveir til viðbótar hlutu einnig lífstíðardóma fyrir þátt sinn í árásinni og fyrir flutning á sprengiefnunum.

Þá fengu sex einstaklingar styttri dóma vegna síns þáttar í málinu, en sjö voru sýknaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert