Lýstu eftir karlmanni með „lítið typpi“

AFP

Lögreglan í Norður-Jórvíkurskíri í Bretlandi hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún biðst afsökunar á að hafa lýst karlmanni sem lýst var eftir á þann hátt að hann væri með „lítið typpi“ en óskað hafði verið eftir aðstoð almennings við að hafa uppi á honum.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að lýst hafi verið eftir manninum vegna tilkynningar um að hann hefði berað sig á almannafæri. Var því lýst eftir nöktum karlmanni í yfirþyngd, með fá líkamshár og samkvæmt lýsingu með lítið typpi.

Lögreglan segir að lýsingin hafi verið gagnrýnd af almennum borgurum sem hafi þótt hún innihalda fullnákvæma lýsingu á manninum sem sagður var hafa berað sig í borginni Jórvík. Lýsingin var send út á mánudaginn en í gær baðst lögreglan afsökunar á henni.

Fram kemur í afsökunarbeiðninni að breytt lýsing á manninum hefði verið send út þar sem tekið væri mið af athugasemdum fólks og ekkert minnst á kynfæri mannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert