Neita að veita innlit á mjólkurbú

Helmingur Dana vissi ekki að kýr þyrftu að fæða kálf …
Helmingur Dana vissi ekki að kýr þyrftu að fæða kálf til að geta framleitt mjólk. AFP

Mjólkurbændur í Danmörku hafa ekki tekið boði frá dýraverndunarsamtökum um að fá greiddar 50 þúsund danskar krónur fyrir leyfi til þess að mynda og veita Dönum innsýn í það sem fram fer á mjólkurbúum.

Samkæmt frétt Independent framleiða yfir 90% allra kúabænda í Danmörku mjólk fyrir danska stórfyrirtækið Arla. Dönsku dýraverndunarsamtökin Anima leituðu upphaflega til Arla og báðu um að fá að veita Dönum innsýn í innlenda mjólkurframleiðslu.

Þegar Arla varð ekki við þeirri ósk og benti á að bændur yrðu sjálfir að veita slík leyfi tók Anima upp á því að kaupa heilsíðuauglýsingar í ellefu dönskum dagblöðum þar sem hverjum þeim bónda sem myndi leyfa upptökur á búum sínum yrðu boðnar 50 þúsund danskar krónur fyrir, sem samsvarar tæpri milljón íslenskra króna.

Helmingur veit ekki hvernig mjólk verður til

Markmið Anima er að sýna Dönum hvernig farið er með kýr og kálfa á kúabúum, þar sem kálfar séu teknir frá mæðrum sínum innan nokkurra klukkustunda frá fæðingu. Þá myndu upptökur einnig sýna hvernig karlkyns kálfar væru drepnir aðeins dagsgamlir, enda hefðu þeir engan tilgang í mjólkurframleiðslunni.

Dýraverndunarsamtökin segja þessa iðju venjulega í mjólkuriðnaði, en nýleg könnun sem gerð var á meðal Dana leiddi í ljós að aðeins helmingur almennings vissi að kýr þyrftu að fæða kálf til þess að framleiða mjólk, og aðeins þriðjungur vissi til þess að kálfarnir væru teknir af mæðrum sínum skömmu eftir fæðingu.

Samkvæmt upplýsingum frá Anima hafa tíu bændur haft samband og lýst yfir áhuga, en enginn samþykkt að láta mynda meðferð dýra á kúabúum sínum.

„Sú staðreynd að þeir séu svo óviljugir til þess að sýna almenningi hvað gengur á sendir skýr skilaboð,“ segir talskona Anima, Kirsty Henderson. „Neytendur eiga rétt á að vita hvernig mjólkin þeirra og smjörið eru framleidd, og það er ljóst að ef þeir fengju að vita allan sannleikann myndi almenningur ekki sætta sig við svona miskunnarleysi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert