7.000 ungmenni með sykursýki 2

Eitt af hverjum þremur börnum í Englandi og Wales eru …
Eitt af hverjum þremur börnum í Englandi og Wales eru í yfirþyngd eða of feit þegar þau útskrifast úr grunnskóla. Ljósmynd/Thinkstock

Allt að 7.000 börn og ungmenni undir 25 ára eru með sykursýki af gerð 2 í Englandi og Wales, og er fjöldinn tíu sinnum meiri en áður hafði verið haldið fram. Í ljós hefur komið að flestir leita meðferðar hjá heimilislæknum fremur en sérfræðingum.

BBC greinir frá því að helsta ástæða faraldursins sé offita og sérfræðingar í heilsu barna í Bretlandi hafa nú kallað eftir aðgerðum stjórnvalda til að koma böndum á ástandið.

Eitt af hverjum þremur börnum í Englandi og Wales eru í yfirþyngd eða of feit þegar þau útskrifast úr grunnskóla og segja bresku offitusamtökin fjölda sykursjúkra ekki koma á óvart, en að ástandið sé sorglegt og óásættanlegt.

Stærstur hluti þeirra sem greinst hafa með sykursýki 2 í löndunum tveimur eru á aldrinum 20 til 24 ára, en þó leiddi rannsóknin, sem framkvæmd var á árunum 2016 til 2017, í ljós að ellefu börn á aldrinum fimm til níu ára væru greind með sykursýki 2, og 196 tíu til fjórtán ára gömul börn.

Insúlínskortur yfirvofandi á næstu árum

Í gær greindi fréttastofa Reuters frá rannsókn sem sýnir að spurn eftir insúlíni vegna sykursýki sé í hámarki og að framboð þurfi að aukast um yfir 20% á næstu tólf árum til þess að mæta eftirspurn. Ef framboð eykst ekki og verði verður ekki haldið í lágmarki má gera ráð fyrir því að tugir milljóna manna muni upplifa insúlínskort.

Níu prósent fullorðinna í heiminum eru með sykursýki 2, sem getur leitt til blindu, nýrnabilunar, hjartavandamála og aflimana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert