Dæmdur í 5.160 ára fangelsi

AFP

Fyrrverandi hermaður var dæmdur í 5.160 ára fangelsi fyrir fjöldamorð á bændum í Gvatemala í gær. Morðin eru ein mestu grimmdarverk sem framin voru í borgarstyrjöldinni í landinu.

Santos Lopez var fundinn sekur um að bera ábyrgð á drápi á 171 bónda af þeim rúmlega 200 bændum sem voru drepnir í desember 1982 skammt frá landamærum Mexíkó. Lopez var dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir hvert morð, alls 5.130 ár, auk þess sem hann var dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir aðild að morði á barni. Um táknrænan dóm er að ræða því hámarksvistun í fangelsi í Gvatemala eru 50 ár.

Lopez var liðsmaður í sérsveit hersins, Kaibil, sem var þjálfuð af bandarískum yfirvöldum til þess að bæla niður uppreisnir. Hann var handtekinn í Bandaríkjunum og framseldur til Gvatemala árið 2016.

Samkvæmt rannsóknargögnum var Lopez í herflokki sem framdi fjöldamorðin í desember 1982 í Dos Erres, við landamæri Mexíkó. Hermennirnir voru að reyna að endurheimta 20 riffla sem uppreisnarmenn höfðu stolið í fyrirsát sem kostaði 19 hermenn lífið. 

Saga Dos Erres var sögð í heimildarmyndinni Finding Oscar í fyrra en Steven Spielberg framleiddi myndina. Þar er fjallað um dreng sem alinn var upp af einum hermannanna en herflokkurinn hafði þyrmt lífi hans.

Nokkrir aðrir liðsmenn Kaibiles hafa verið dæmdir og hafa þeir allir fengið yfir sex þúsund ára dóma. Þrír þeirra eru í fangelsi í Bandaríkjunum fyrir brot á innflytjendalöggjöfinni en nokkrir eru taldir búsettir í Bandaríkjunum. Fjöldamorðin voru framin þegar Efrain Rios Montt sem var einræðisherra í Gvatemala en hann var á sínum tíma ákærður fyrir þjóðarmorð. Hann lést í apríl. 

Rios Montt var sakaður um að hafa fyrirskipað morð á 1.771 frumbyggja (Ixil-Maya) þann stutta tíma sem hann var við völd, 1982-83, er borgarastyrjöldin, sem geisaði í 36 ár, var í hámarki. 

Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna voru um 200 þúsund drepnir eða hurfu í borgarastyrjöldinni sem lauk árið 1996.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert