„Guð elskar ykkur!“

Chau hafði borgað sjómönnum á Andaman-eyjum, sem North Sentinel tilheyrir, …
Chau hafði borgað sjómönnum á Andaman-eyjum, sem North Sentinel tilheyrir, til að sigla með hann að eyjunni. AFP

Bandaríski maðurinn sem lést eftir árás ættbálks á North Sentinel-eyju í Indlandshafi í síðustu viku var þangað kominn til þess að boða kristni. Hann steig ólöglega á land á eyjunni, en Sentinelese-ættbálkurinn nýtur verndar, og fannst látinn daginn eftir.

Samkvæmt nýjum heimildum, sem fréttastofa AFP hefur eftir, hafði John Allen Chau komið til eyjunnar með nokkuð magn af fiski, auk fótbolta, til að gefa innfæddum. Hann varð hins vegar fyrir árás heimamanna, sem tókst meðal annars að skjóta ör í gegnum Biblíu sem Chau hafði meðferðis.

Þegar hann kom á eyjuna hafi hann æpt: „Ég heiti John. Ég elska ykkur og Jesús elskar ykkur. Hér er fiskur!“

Þegar örvunum byrjaði að rigna yfir hann ákvað hann hins vegar að snúa til baka í bát sjómannanna sem höfðu leyft honum að sigla með sér og skrifaði um upplifun sína í dagbók. Daginn eftir gerði hann aðra tilraun til þess að nálgast ættbálkinn. Hann sneri ekki aftur í það skiptið.

Skrifaði foreldrum sínum áður en hann fór

Indverjum sem og útlendingum er meinað að koma innan við fimm kílómetra frá eyjunni. Sentinelese-ættbálkurinn er einangraður og sagður mjög óvinveittur aðkomufólki, en þeir drápu tvo sjómenn sem rak til eyjunnar árið 2006 og skutu örvum að þyrlu sem var að athuga skemmdir eftir flóðbylgjuna í Indlandshafi árið 2004.

Chau hafði borgað sjómönnum á Andaman-eyjum, sem North Sentinel tilheyrir, til að sigla með hann að eyjunni. Í bréfi sem hann skrifaði foreldrum sínum skömmu áður sagði hann að hann skildi ef þeim þætti hann brjálaður, en að það væri þess virði að kynna ættbálkinn fyrir Jesú. „Ekki vera þeim eða Guði reið ef ég verð drepinn.“

Sjómenn sáu fólk úr ættbálkinum grafa lík Chau á ströndinni og vinna bandarísk og indversk stjórnvöld nú að því að finna leið til þess að endurheimta líkamsleifar Chau án þess að trufla ættbálkinn. Óljóst þykir hvort atvikið muni hafa einhverjar lagalegar afleiðingar, en sjómennirnir sem hjálpuðu Chau til eyjunnar hafa verið handteknir.

View this post on Instagram

John Allen Chau

A post shared by John Chau (@johnachau) on Nov 21, 2018 at 11:36am PST

Fjölskylda Chau hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis að þau fyrirgefi meintum banamönnum Chau og óska þau þess að vinum hans, sjómönnunum sem hjálpuðu honum til eyjunnar, verði sleppt úr haldi lögreglu. „Hann fór af fúsum og frjálsum vilja og félagar hans af svæðinu ættu ekki að vera sóttir til saka hans vegna.“

Chau var að sögn fjölskyldunnar kristniboði, bráðaliði, knattspyrnuþjálfari og fjallgöngumaður sem elskaði lífið og guð, og að hjálpa fólki í neyð.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert