„Hann var Guð“

Lee Jaeroc.
Lee Jaeroc. AFP

Suðurkóreskur prestur hefur verið dæmdur í fimmtán ára fangelsi fyrir að nauðga átta konum sem voru sóknarbörn hans. 

Lee Jae-rock, sem er á áttræðisaldri, var með um 130 þúsund fylgjendur við Mamin-kirkjuna í Seúl. Hann neitar alfarið sök. Fórnarlömb hans lýsa aftur á móti guðdómlegum krafti hans og að ekki hafi verið hægt annað en að gera það sem hann bað um. „Hann var Guð.“

Flestir íbúa Suður-Kóreu sem eru kristnir tilheyra hefðbundnum trúfélögum sem raka saman fé og hafa mikil áhrif, segir í frétt BBC. Síðan eru aðrir á jaðrinum þar sem heilaþvottur og fjársvik eru áberandi af hálfu stjórnenda á dýrkendur sína.

Kirkja Lee er álitin hliðardæmi af hefðbundnu kristnu trúfélagi. Lee setti söfnuðinn á laggirnar árið 1982 og á þeim tíma voru fylgjendurnir aðeins 12 talsins. En hún hefur síðan vaxið og dafnað þar sem kraftaverkum er lofað í risastórum höfuðstöðvum. Fyrr á þessu ári stigu þrjár konur fram og greindu frá því að hann hafi boðað þær á heimili sitt og þvingað þær til kynmaka. 

„Ég var ófær um að hafna honum,“ sagði ein þeirra við fjölmiðla á þessum tíma. „Hann var meira en konungur. Hann var Guð,“ segir konan sem hafði verið sóknarbarn Lee frá því í barnæsku.

Alls lögðu átta konur fram kæru og var Lee handtekinn í maí. Niðurstaða dómsins er að hann hafi áreitt og nauðgað fórnarlömbum sínum ítrekað á löngum tíma. 

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert