Misstu allt vegna taugagassins

Lögreglumaður á vakt fyrir utan heimili Sergei Skripal í Salisbury …
Lögreglumaður á vakt fyrir utan heimili Sergei Skripal í Salisbury fyrr á árinu. AFP

Breskur lögreglumaður, sem ásamt félaga sínum var sendur á staðinn þar sem Sergei og Júlía Skripal urðu fyrir taugagasárás, og fjölskylda hans, misstu allt sitt í kjölfarið. Taugagasárásin átti sér stað í borginni Salisbury í Bretlandi 4. mars á þessu ári.

Lögreglumaðurinn, Nick Bailey, greinir frá þessu í viðtali en hann komst í snertingu við taugagasið og varð í kjölfarið fárveikur vegna þess. Áður en honum varð það ljóst varð hann óafvitandi þess valdandi að heimili hans varð einnig fyrir áhrifum eiturgassins.

Fyrir vikið urðu Bailey og fjölskylda hans að yfirgefa heimili þeirra og skilja eftir allar eigur sínar. Þar með talið leikföng barnanna og fjölskyldubifreiðarnar að því er segir á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC. Þau hafa ekki enn fengið að snúa heim til sín.

Bailey lýsir hræðilegri reynslu sinni af því að veikjast vegna taugagassins. Hann hafi verið ringlaður, ekki vitað hvað væri að gerast og orðið virkilega hræddur. Læknar þurftu fyrst að komast að því hvað hefði gerst og hvernig nákvæmlega ætti að bregðast við því.

Við tók meðferð sem Bailey segir hafa verið sársaukafulla og erfiða. Hann hafi verið með meðvitund allan tímann og þurft hafi að sprauta hann mörgum sinnum á dag. Bailey skilur ekki enn hvernig eitrið hafi komist í gegnum hlífðarhanskana sem hann bar.

Taugagasinu hafði verið úðað á hurðarhúninn á heimil Sergei Skripal. Bresk stjórnvöld eru ekki í vafa um að rússneskir ráðamenn hafi staðið á bak við árásina og hefur ýmislegt komið fram sem stutt hefur þá fullyrðingu. Rússnesk stjórnvöld vísa því hins vegar á bug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert