„Þetta reddast allt saman“

Anton Axelsson fyrir miðju ásamt eiginkonu sinni Chrystal Axelsson og …
Anton Axelsson fyrir miðju ásamt eiginkonu sinni Chrystal Axelsson og Ramon Silva. Þau reka veitingastað í bænum Paradise. Ljósmynd/Aðsend

Þakkargjörðarhátíðin er öðruvísi þetta árið hjá íbúum smábæjarins Paradísar í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum en bærinn er einn þeirra sem fór hvað verst út úr skógareldunum sem hafa geisað í ríkinu undanfarnar vikur. Eldarnir hafa orðið 83 að bana og þurftu 30 þúsund íbúar Paradísar að yfirgefa heimilin sín sem flest brunnu til grunna.

Frá heimsókn Donalds Trump Bandaríkjaforseta til Paradísar á sunnudag.
Frá heimsókn Donalds Trump Bandaríkjaforseta til Paradísar á sunnudag. AFP

Anton Axelsson, sem hefur búið í Bandaríkjunum um langt skeið, á veitingahús í Paradís ásamt bandarískri eiginkonu sinni. „Það eru allir að koma saman í dag og halda upp á þakkargjörðarhátíðina. Í gær voru allir að hjálpast að, ég hef aldrei séð svona margt fólk koma saman og hjálpa til,“ segir Anton en hann og aðrir starfsmenn veitingahúss þeirra hjóna standa vaktina í eldhúsinu og í móttökunni í dag þegar búist er við fimm þúsund manns í mat.

„Þetta er styrkt af fyrirtæki sem heitir Sysco, þeir gáfu kalkún, fyllingu, gos og allt saman,“ segir Anton en þakkargjörðarhátíðin er einnig haldin í samstarfi við FEMA, almannavarnir Bandaríkjanna.

„Það eru allir bara enn þá að reyna að koma hausnum í kringum þetta. Fólk er að leita að húsnæði og FEMA er komið á svæðið. Forsetinn kom hingað og heimsótti bæinn um daginn. Hann kallaði reyndar Paradís „Pleasure“ allan tímann á meðan hann var hérna,“ segir Anton léttur í bragði.

Fyrstu gestirnir mæta til þakkargjörðarhátíðarinnar fyrir íbúa Paradísar.
Fyrstu gestirnir mæta til þakkargjörðarhátíðarinnar fyrir íbúa Paradísar. Ljósmynd/Aðsend

„Eins og er þá er engum hleypt upp eftir. Það hefur ekkert breyst en við eigum von á að komast á mánudag eða þriðjudag,“ segir Anton. Þau hjónin og börn þeirra búa í öðrum smábæ, Chico, um hálftíma frá Paradís svo þau þurftu ekki að yfirgefa heimilið. Tekjur fjölskyldunnar hafa þó rýrnað svakalega enda var veitingahúsið þeirra helsta tekjulind.

„Þetta var nánast okkar eina innkoma. Jólin og hátíðirnar eru fram undan og við erum með sex börn. Konan mín á annað fyrirtæki sem selur mjólkurmálningu en það er nú ekki mikið,“ segir Anton. „En ég tek Íslendinginn á þetta, þetta reddast allt saman.“

Skiptar skoðanir hvort fólk ætli að endurbyggja eða flytja annað

Að sögn Antons er talað um að það taki átta til tíu ár að endurbyggja Paradís eftir brunann. „Það er verið að vara fólk við þegar það fer upp eftir að nota hlífðarfatnað, grímur og stígvél því húsin þarna voru svo gömul og það var mikið asbest í húsunum,“ segir Anton.

„Það eru allir að bíða eftir að komast upp eftir til að skanna húsin sín og tryggingafélögin sömuleiðis, til að taka myndir þannig að hægt sé að borga fólki út. Svo þarf fólk að ákveða hvort það ætli að endurbyggja húsin sín eða taka peninginn og fara eitthvað annað. Það eru skiptar skoðanir meðal fólks hvort það ætli að fara eða endurbyggja.“

Fjölskyldulífið á heimilinu er óvenjulegt þessa dagana þar sem skólanum var lokað vegna slæmra loftgæða. „Ég reyni að eyða tímanum einhvern veginn. Ég er ekki vanur að sitja heima og gera ekki neitt. Ég er að verða geðveikur,“ segir Anton. „Ég er vanur að vakna fimm á morgnana og vera að allan daginn. En konan er ánægð að hafa mig svona mikið heima,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert