Unglingur með 180 LSD-skammta

Púsluspil með mynd úr ævintýrinu um Lísu í Undralandi var …
Púsluspil með mynd úr ævintýrinu um Lísu í Undralandi var ekki allt það sem það var séð en reyndist gegndreypt í LSD og taldi allt spilið 180 neysluskammta. Ljósmynd/Lögreglan í Stavanger

„Að þeir vogi sér að reyna svo sterkt fíkniefni er okkur í lögreglunni ærin áskorun og nú berjumst við gegn þessari þróun með kjafti og klóm,“ segir Cathrine Sæland Roseth hjá suðvesturumdæmi norsku lögreglunnar í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og á við stóraukna umferð ofskynjunarefnisins LSD meðal unglinga, sem lögreglan í Stavanger hefur ekki farið varhluta af.

Fyrr í þessum mánuði gerði lögregla þar í bænum húsleit á heimili 17 ára unglings, barns lögum samkvæmt, og fann þar nokkuð sem ekki hefur verið það algengasta meðal ungs fólks í tilraunaneyslu þar um slóðir. Um var að ræða púsluspil með mynd úr ævintýrinu um Lísu í Undralandi eftir Lewis Carroll en oft er flagð undir fögru skinni og hafði hver bútur myndarinnar verið gegndreyptur LSD þannig að saman voru komnir í allt 180 neysluskammtar efnisins.

Hátt í 500 mál í ár

Sjaldan er ein báran stök því einnig kom nýlega upp mál annars 17 ára drengs sem gripinn var glóðvolgur á heimili sínu með 200 e-töflur og 54,8 grömm af maríjúana en vefsíðan ABC Nyheter greindi frá þessu í dag.

Lögregla suðvesturumdæmisins segir um gríðarlega fjölgun mála að ræða þar sem ólögráða unglingar, undir 18 ára aldri, eru teknir með fíkniefni en þau mál eru orðin 476 það sem af er ári en voru 308 allt árið 2017. Í Stavanger einni, sem er aðeins hluti umdæmisins, eru slík unglingamál 234 í ár en voru 124 allt árið í fyrra. Lögregla lýsir því einnig við Stavanger Aftenblad sem læsir vef sínum öðrum en áskrifendum, að aukin amfetamínnotkun sé einnig áhyggjuefni og verði lögregla nú vör við mikla amfetamínnotkun unglinga sem ekki lengur sé eingöngu bundin við að auka þeim ásmegin í skemmtanalífinu heldur sé efnið nú enn fremur nýtt til að halda sér vakandi í skólanum.

Í áður tilvísaðri frétt NRK er það einnig haft eftir Catherine Sæland Roseth að lögregla merki viðhorfsbreytingu hjá unglingum gagnvart fíkniefnum, einkum kannabisefnum, og sé nú svo komið að lögregla sitji undir miklum fyrirlestrum frá ungmennum, sem hún handtaki eða hafi önnur afskipti af, um hve hættulítil efni þessi séu.

NRK heimsótti framhaldsskólann í Bryne, sunnan við Stavanger, við vinnslu fréttarinnar og ræddi þar við nemendur í frímínútum. Kom þar fram að neysla kannabisefna þætti orðin mun hversdagslegri en áður fyrr. „Þetta hefur verið gert mun eðlilegra (n. normalisert) núna en áður og mun meira er fjallað um kannabisefni í fjölmiðlum,“ segja þær Renate Byberg og Tiril Lima Horpestad við NRK, en taka þó fram að þær neyti sjálfar ekki kannabisefna.

Dagsavisen er meðal annarra norskra fjölmiðla sem fjallað hafa um þessa nýlegu þróun mála í Stavanger og nágrenni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert