Vilja komast yfir landamærin

AFP

Vaxandi spenna er við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó en nokkur hundruð manns komu í dag að El Chaparral-brúnni sem liggur á landamærum landanna á leiðinni á milli borganna San Diego í Kaliforníu-ríki og Tijuana í Mexíkó.

Fólkið er aðallega frá ríkjum í Mið-Ameríku og er að mestu leyti um að ræða karlmenn samkvæmt frétt AFP. Fólkið, sem vill freista þess að komast yfir landamærin til Bandaríkjanna, hafði áður hafst við í neyðarskýlum við landamærin. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað því að loka landamærunum tímabundið reynist það nauðsynlegt til þess að gæta öryggis en áður hafði hann fyrirskipað þúsundum bandarískra hermanna að fara að landamærunum til þess að verja þau. 

Trump segir að komi til þess að loka þurfi landamærunum verði að sama skapi ekki hægt að flytja vörur frá Mexíkó til Bandaríkjanna á meðan sú staða er uppi.

Yfirvöld í Mexíkó hafa reynt að fá fólk til þess að vera um kyrrt í landinu með því að bjóða því vinnu og tímabundið dvalarleyfi og hafa sumir tekið því boði en aðrir eru staðráðnir í að komast yfir landamærin.

Fram kemur í fréttinni að nokkur þúsund manns, sem aðallega komi frá Hondúras og séu að flýja fátækt heima fyrir, hafist við í neyðarskýlum við landamærin.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert