Handteknir fyrir morð í Kosovo

AFP

Þrír Serbar, sem eru búsettir í norðurhluta Kosovo, voru handteknir í dag í tengslum við morð á þekktum serbneskum stjórnmálamanni, Oliver Ivanovic, en hann var skotinn til bana í Kosovo í janúar.

Þremenningarnir voru handteknir snemma í morgun af sérsveit lögreglunnar í Kosovo. Mennirnir eru búsettir í norðurhluta Mitrovica en borgin skiptist í tvennt: Serbar í norðurhluta hennar og Albanar í suðurhlutanum. 

Fjórir voru handteknir en einn þeirra var ekki handtekinn í tengslum við morðið heldur fyrir að trufla störf lögreglunnar. Lögreglan leitar hins vegar manns sem er auk hinna þriggja grunaður um aðild að morðinu.

Ivanovic var skotinn til bana fyrir framan skrifstofu sína í norðurhluta Mitrovica 16. janúar. Hann var álitinn einn fárra stjórnmálamanna í Kosovo sem náði að tengja saman serbneska minnihlutann og albanska meirihlutann.  

Vaxandi spenna er í samskiptum Serba og Kosovo en fyrrnefnda ríkið viðurkennir ekki sjálfstæði Kosovo. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert