Óvíst með ábyrgð krónprinsins

Forsetahjónin, Donald Trump og Melania Trump, snæddu þakkargjörðarmáltíðina með fjölskyldu …
Forsetahjónin, Donald Trump og Melania Trump, snæddu þakkargjörðarmáltíðina með fjölskyldu sinni á Mar-a-Lago í Flórída í gærkvöldi. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segir að leyniþjónusta Bandaríkjanna (CIA) saki ekki krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, um að bera ábyrgð á morðinu á Jamal Khashoggi.

Hann segir að leyniþjónustan hafi ekki sýnt fram á að prinsinn hefði fyrirskipað morðið en embættismenn hafa tjáð bandarískum fjölmiðlum að slík aðgerð og morðið á Khashoggi hafi þurft að fá samþykki krónprinsins. 

Trump segir að hann efist um að það verði nokkurn tímann hægt að slá því föstu að krónprinsinn hafi gert það en Trump hefur ítrekað mikilvægi Sádi-Arabíu fyrir Bandaríkin að undanförnu. Trump ræddi við fréttamenn í Flórída í gærkvöldi en hann snæddi þakkargjörðarmáltíðina með fjölskyldu sinni þar. 

Ivanka Trump ásamt sonum sínum Joseph Kushner og Theodore Kushner …
Ivanka Trump ásamt sonum sínum Joseph Kushner og Theodore Kushner Donald Trump og Tiffany Trump. AFP

Fyrr í vikunni gaf Trump út yfirlýsingu þar sem hann sagði að krónprinsinn hafi jafnvel vitað af þessum hörmulega atburði. Kannski vissi hann, kannski ekki, sagði í yfirlýsingunni.

Blaðafulltrúi Hvíta hússins, Sarah Sanders, sagði við fréttamenn 17. nóvember að Trump bæri fyllsta traust til CIA eftir að hafa rætt við forstjóra CIA, Ginu Haspel, og utanríkisráðherra, Mike Pompeo, um morðið á Khashoggi.

BBC segir að á þeim tíma hafi heimildir bandarískra fjölmiðla sagt að engar sannanir væru fyrir því að krónprinsinn tengdist morðinu beint þrátt fyrir að heimildarmenn fjölmiðla vestanhafs hafi efast um að slíkt morð væri framið án hans samþykkis. 

Yfirvöld í Sádi-Arabíu sögðu þetta ekki rétt og að krónprinsinn hefði hvergi komið nærri.

Dagblaðið Hurriyet birti í gær frétt um að Haspel hafi tjáð tyrkneskum embættismönnum í síðasta mánuði að CIA ætti upptökur þar sem krónprinsinn gaf fyrirskipanir um að það ætti að þagga niður í blaðamanninum eins fljótt og auðið væri.

Þegar Trump var spurður út í þetta í gær sagðist hann ekki vilja ræða þetta. Blaðamenn ættu frekar að spyrja aðra um þetta.

Krónprinsinn fór í gær í heimsókn til Sameinuðu arabísku furstadæmanna og markar heimsóknin upphaf ferðalags um arabaheiminn. Þetta er fyrsta opinbera heimsókn hans frá morðinu 2. október.

Hann mun mæta á fund leiðtoga G20-ríkjanna í Buenos Aires í Argentínu í lok mánaðar. En þar verða leiðtogar frá Bandaríkjunum og nokkrum ríkjum Evrópu.

Frakkar hafa lýst því yfir að þeir ætli að leggja refsiaðgerðir á 18 Sádi-Araba líkt og Bandaríkin, Bretland og Þýskaland hafa þegar gert. Mennirnir eiga það sameiginlegt að tengjast morðinu á Khashoggi.

Danir hættu vopnasölu til Sádi-Arabíu í gær vegna morðsins en áður höfðu Þjóðverjar hætt að selja þeim vopn. Utanríkisráðherra Danmerkur, Anders Samuelsen, greindi frá þessu og sagðist vonast til þess að fleiri ríki fylgdu í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert