Hafnar tímaási Jemtland-vígs

Skotvopnið í Jemtland-málinu, rússnesk níu millimetra hálfsjálfvirk Makarov-skammbyssa, fannst 8. …
Skotvopnið í Jemtland-málinu, rússnesk níu millimetra hálfsjálfvirk Makarov-skammbyssa, fannst 8. maí. Óljóst er hvernig ákærði, Svein Jemtland, eignaðist vopnið. Ljósmynd/Norska lögreglan

Skaut Svein Jemtland eiginkonu sína, Janne heitna Jemtland, í ennið af ásetningi aðfaranótt 29. desember síðastliðins eða hljóp skot af slysni úr 9 millimetra Makarov-skammbyssu í höfuð hennar þegar þau hjónin tókust á við útidyr heimilis síns? Þessi úrslitaspurning í Jemtland-málinu hvílir á Trond Christoffersen héraðsdómara og meðdómendum hans við Héraðsdóm Hedmark-fylkis og mun ráða úrslitum um hvort Jemtland telst hafa gerst sekur um manndráp af gáleysi eða hvort hann skaut konu sína í höfuðið með köldu blóði.

Vitnaleiðslum í málinu lauk nú fyrir helgi og höfðu Iris Storås saksóknari og Ida Andenæs og Christian Flemmen Johansen, verjendur Svein Jemtland, þá leitt fram 40 vitni í málinu, þar á meðal báða syni þeirra hjóna, blaðbera, bróður hinnar látnu, kunningja Svein sem lánaði honum bíl hina örlagaríku nótt, tæknimenn frá Kripos og fleiri. Vitnisburður eldri sonarins um síðustu augnablik móður hans var sláandi.

Eitt af því sem tekist hefur verið á um í vikunni er hvenær Svein Jemtland ók með konu sína, sem þá var hugsanlega enn á lífi þrátt fyrir að hafa verið skotin í höfuðið af aðeins nokkurra sentimetra færi, og varpaði henni af Eid-brúnni í Våler niður í ána Glommu, 83 kílómetra aksturleið frá heimili þeirra í Brumunddal.

Hvar drukknaði Janne?

Svein sjálfur heldur því fram að hann hafi látið konu sína liggja í bíl þeirra í einn sólarhring áður en hann ók af stað áleiðis til Våler og segir það hafa verið hreint áfall er honum var tjáð við yfirheyrslur að dánarorsök hennar hafi verið drukknun. Storås saksóknari segir þessar tímasetningar ekki standast og vísar í framburð réttarlæknanna Per Hoff Olsen og Silje Osberg sem krufðu hina látnu 15. janúar og segja dánarorsök hennar hafa verið drukknun í mesta lagi tveimur til þremur tímum eftir að skotið hæfði hana í ennið.

Storås saksóknari telur hins vegar að Janne Jemtland hafi verið látin þegar Svein varpaði henni í Glommu. Hún ber hins vegar ekki brigður á að dánarorsökin hafi verið drukknun en telur að Svein hafi drekkt konu sinni í lítilli vatnsuppsprettu á skíðasvæði um þrjá kílómetra frá heimili hennar. Hvernig er sú kenning til komin? Vatnið sem fannst í lungum Janne Jemtland reyndist ekki innihalda neina kísilþörunga, en sýni úr öllum ám og vötnum í nágrenni við heimili þeirra hjóna reyndust rík af slíkum þörungum. Nema eitt, sýnið úr uppsprettunni við Veldre sag-gönguskíðasvæðið.

Byssunni stolið frá tékkneska hernum

Önnur stór spurning í málinu, sem þó mun ekki hafa úrslitaþýðingu um ásetning eða gáleysi Svein, er hvaðan skotvopnið kom, en ákærði vísaði lögreglu á það 8. maí þar sem það lá á víðavangi á Vangsåsen.

Vopnið er rússnesk níu millimetra hálfsjálfvirk Makarov-skammbyssa sem eitt sinn tilheyrði tékkneska hernum og er skráð þar sem stolin (frá hernum) einhvern tímann á tímabilinu 1996 til 1999. Svein Jemtland hélt því fyrst fram að Janne kona hans hefði átt byssuna en síðar breytti hann þeim framburði og sagðist hafa keypt hana í Marseille í Frakklandi en Svein gegndi herþjónustu í frönsku útlendingahersveitinni fyrr á tíð.

Varðandi notkun Makarov-byssunnar umrætt kvöld heldur Svein því fram að Janne hafi upphaflega haldið á byssunni og hótað að „skjóta af honum eistun“ eftir að þau komu heim úr jólaboði upp úr miðnætti aðfaranótt 29. janúar en hún hafði þá komist að því að Svein hefði stofnað notandareikning á stefnumótaforritinu Tinder og var það undirrót deilu þeirra.

Hann hafi þá gripið um hönd hennar, þau tekist á og átökin færst út úr húsinu og á pall við útidyrnar. Þar segir hann þau hafa dottið og hár hvellur kveðið við í fallinu og hafi Janne þá enn haldið á skotvopninu. 

Þetta segir Leif Øren, skotvopnasérfræðingur frá rannsóknarlögreglunni Kripos, nær ómögulegt. „Að beina þessu vopni að sjálfum sér gefur mjög stutt skotfæri og um leið er mjög erfitt að taka í gikkinn,“ sagði Øren í vitnastúkunni í vikunni. Hann sagði byssuna mjög þunga og gikkinn stífan. „Ég ætlaði ekki að geta hleypt af henni sjálfur,“ sagði hann.

Gert er ráð fyrir lokaræðum saksóknara og verjenda eftir helgi og verður þetta óhugnanlega mál hjónanna frá Brumunddal því næst dómtekið.

Fréttir norskra fjölmiðla af málinu síðustu daga:

NRK

Dagbladet (vitnaleiðslur)

Dagbladet (símanotkun Svein Jemtland)

Dagbladet (hvar drukknaði Janne Jemtland?)

Aftenposten

VG (ferðir Svein eftir að skotið hljóp af)

VG (framburður skotvopnasérfræðings Kripos)

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert