Bretar að fresta stóru málunum

Jean Claude-Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, …
Jean Claude-Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, fylgjast út af fundi í Brussel en samstarf þeirra mun að líkum minnka til muna á næstu mánuðum. AFP

„Þessi samningur frestar hins vegar stóru málunum svolítið inn í framtíðina. [Bretar] verða áfram í tollabandalaginu þar til annað verður ákveðið af báðum aðilum.“ segir Eiríkur Bergmann, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði við Há­skól­ann á Bif­röst, í sam­tali við mbl.is um að leiðtog­ar ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins hafi samþykkt Brex­it-sam­komu­lagið á fundi sem fór fram í Brus­sel.

„Bretarnir vilja áfram vera þátttakendur í mörgu og þess vegna hefur þetta verið erfitt,“ segir Eiríkur. Þá bendir hann á að tollabandalagið sé „kannski innsti kjarninn í því sem Evrópusambandið gerir. Þannig Bretar eru áfram þátttakendur í innsta kjarnaverkefni bandalagsins. Þess vegna eru útgöngusinnarnir á Bretlandi svona brjálaðir.“

Eiríkur segir þó að samkomulagið sem samþykkt hefur verið sé samningur milli ríkisstjórna, og eigi eftir að samþykkja í Breska þinginu. Engin leið sé að spá fyrir um hvort samkomulagið fái brautargengi þar.

Aðspurður hvaða áhrif það hefði ef breskir þingmenn myndu ekki samþykkja samkomulagið svarar Eiríkur: „Þá fellur auðvitað þessi samningur, og Bretar fara út samningslausir. Nema því yrði vísað í aðra þjóðaratkvæðagreiðslu sem er fremur fjarlægur möguleiki, en samt einn af möguleikunum.“  

Eiríkur segir Brexit-málið ekki það erfiðasta sem ESB hefur þurft …
Eiríkur segir Brexit-málið ekki það erfiðasta sem ESB hefur þurft að takast á við. Haraldur Jónasson / Hari

Ekki endalok ESB

„Aðildarríkin 27 hafa staðið algjörlega saman í málinu. Það var stór hluti af áætlun Breta að reyna að sundra samstöðu hinna ríkjanna, það tókst ekki,“ segir Eiríkur aðspurður hvort fullyrðingar um að upp sé runnið upphafið að endalokum Evrópusambandsins eigi við rök að styðjast.

Hann bætir við að Evrópusambandið sé í raun kerfi til að takast á við krísurnar í Evrópu. „Hið náttúrulega ástand Evrópusambandsins er að takast á við krísur. Það hefur farið nú farið í gegnum hverja krísuna á fætur annarri sem menn hafa talað um að myndi bana því,“ segir hann og bætir við að Brexit-málið sé ekki erfiðasta málið sem ESB hefur þurft að takast á við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert