Bernardo Bertolucci er látinn

Bernardo Bertolucci.
Bernardo Bertolucci. Wikipedia/Foto di Elisa Caldana

Ítalski kvikmyndaleikstjórinn Bernardo Bertolucci er látinn 77 ára að aldri. Bertolucci var talinn einn fremsti leikstjóri heims á sínum tíma en meðal kvikmynda hans eru Last Tango In Paris og The Last Emperor.

Greint er frá láti hans í ítölskum fjölmiðlum í dag en hann lést í Róm. Banamein hans var krabbamein. Að sögn umboðsmanns hans lést hann klukkan 7 í morgun að staðartíma, klukkan sex að íslenskum tíma.

Kvikmynd Bernardo Bertolucci, The Last Emperor, hlaut níu Óskarsverðlaun en leikstjórinn hafði áhrif á heila kynslóð kvikmyndagerðarmanna með verkum eins og The Conformist og Last Tango In Paris. 

Árið 2011 fékk hann heiðursverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Cannes og eins á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum árið 2007. Bertolucci starfaði bæði í Evrópu og Hollywood.

Hann hafði verið í hjólastól í rúman áratug eftir að aðgerð á hryggþófaraski árið 2003 mistókst. 

Bertolucci fæddist í Parma árið 1940 og fékk listrænt uppeldi en faðir hans Attilio var ljóðskáld og kennari. Attilio var vinur rithöfundarins Pier-Paolo Pasolino sem réð Bertolucci til sín sem aðstoðarmann þegar sá síðarnefndi var tvítugur að aldri.

Pasolini mælti með honum sem handritshöfundi fyrir kvikmyndina La Commare Secca árið 1962 og var það fyrsta myndin sem Bertolucci kom að. Fyrsta myndin sem hann leikstýrði var Before the Revolution (1964), segir í frétt Guardian um andlátið í morgun.

Síðasta kvikmynd Bertolucci er Me and You sem byggir á bók Niccolò Ammaniti. Hann var kvæntur kvikmyndagerðarkonunni Clare Peploe en þau gengu í hjónaband árið 1978. 

mbl.is