Grunaður um njósnir fyrir Norður-Kóreu

Franskir lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni.
Franskir lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni. AFP

Franska öryggislögreglan handtók í dag opinberan starfsmann sem grunaður er um að hafa látið norður-kóreskan njósnara fá viðkvæmar ríkisupplýsingar.

Reuters-fréttaveitan hefur eftir heimildamanni innan dómskerfisins að maðurinn sé í haldi lögreglu vegna máls sem saksóknaraembættið í París hóf rannsókn á í mars á þessu ári.

Er maðurinn, að sögn heimildamannsins, grunaður um að hafa safnað upplýsingum og að hafa komið þeim áfram til erlendrar leyniþjónustu sem teljist líkleg til að vilja vinna gegn hagsmunum Frakklands.

Sagði hann frönsku leyniþjónustuna og öryggislögreglu fara með rannsókn málsins.

Fjöldi franskra fjölmiðla greindi frá því í dag að maðurinn hafi starfað fyrir öldungadeild franska þingsins og staðfestu heimildamenn nánir þingforsetanum Gerard Larcher að húsleit hefði verið gerð í húsakynnum öldungadeildarinnar í dag.

Hefur AFP-fréttaveitan nafngreint manninn sem Benoit Quennedey, hátt settan opinberan starfsmann og forseta fransk-kóresku vináttusamtakanna.

Er húsleit sögð hafa verið gerð á heimili hans og á heimili foreldra hans í nágrenni Dijon, að sögn dagblaðsins Le Parisien.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert