Hertóku úkraínsk herskip

Mótmælt við sendiráð Rússa í Kænugarði í gærkvöldi.
Mótmælt við sendiráð Rússa í Kænugarði í gærkvöldi. AFP

Rússar hertóku þrjú úkraínsk herskip skammt frá Krímskaganum um helgina og óttast margir að þetta þýði aukin hernaðarumsvif á þessum slóðum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur verið boðað á neyðarfund í dag.

Rússar beittu vopnum gegn úkraínsku herskipunum og saka áhafnir þeirra um að hafa farið inn í rússneska landhelgi án heimildar. Yfirmaður leyniþjónustu Rússlands, FSB, staðfestir þetta og að hermenn hafi farið um borð í úkraínsku skipin og leitað þar.

Um er að ræða tvö lítil herskip auk dráttarbátar sem voru á leið um Kerch-sund þegar Rússar stöðvuðu för þeirra. 

Úkraínsk yfirvöld segja að sex hermenn hafi særst, þar af tveir alvarlega, en FSB segir að þrír hermenn hafi særst og enginn þeirra sé í lífhættu.

Aðgerðum Rússa var mótmælt í Kænugarði í gærkvöldi og safnaðist hópur saman fyrir utan sendiráð Rússa í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert