Leitaði kisa logandi ljósi

Laci Ping með Mayson í fanginu eftir að hann fannst. …
Laci Ping með Mayson í fanginu eftir að hann fannst. Mayson brenndist á öllum fótum. Af Facbook

Kettir. Hundar. Hamstrar. Endur. Hestar. Svín. Eðlur. Þúsundir gælu- og húsdýra hafa verið flutt í neyðarskýli í hinum gríðarlegu gróðureldum í Kaliforníu. Ólíklegt verður að teljast að öll finni þau eigendur sína á ný en gleðjast má þegar slíkt þó gerist.

Á dýravefnum The Dodo  er sögð ein slík saga. Þar segir af hjónunum Laci Ping og Curtis Mullins sem hafi í flýti pakkað nauðsynjum ofan í tösku er eldarnir nálguðust heimili þeirra í norðurhluta Kaliforníu. Í þann mund sem þau voru að ljúka við að pakka varð gassprenging í hverfinu og við það braust heimiliskötturinn Mayson út úr búri sínu, skelfingu lostinn, og hljóp niður götuna. Ping reyndi að elta hann en slökkviliðsmenn urðu að stöðva hana og koma fjölskyldunni í skjól.

Ping var gjörsamlega eyðilögð vegna hvarfs Mayson sem hún hafði nýverið tekið að sér. Hún hóf þegar í stað að birta myndir af honum á samfélagsmiðlum í þeirri von að einhver gæti gefið upplýsingar um hvort hann hefði komist lífs af og hvar hann væri þá niður kominn. Hún þvældist svo um netið í leit að síðum þar sem gæludýr sem hefðu fundist voru auglýst. „Og svo eftir nokkra daga þá fann ég færslu dýralæknaskóla um ketti sem höfðu fundist.“

Hún segist hafa þekkt Mayson þegar í stað á einni myndinni. Hún og eiginmaðurinn fóru strax að sækja kisu. Ping fór að gráta þegar hún sá loks Mayson á ný. „Ég hélt að ég myndi aldrei sjá hann aftur.“

Mayson hafði brunnið á öllum loppunum í eldinum en talið er að hann muni nú ná sér að fullu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert