Hundruð mótmæla krónprinsinum

Hundruð mótmæltu komu Mohammed bin Salmans krónprins Sádi-Arabíu til Túnis …
Hundruð mótmæltu komu Mohammed bin Salmans krónprins Sádi-Arabíu til Túnis í dag. AFP

Hundruð mótmæltu komu Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, til Túnis í dag. Hvatti fólkið til þess að réttlætið næði fram að ganga í máli sádi-arabíska blaðamannsins Jamal Khashoggi, sem var myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í síðasta mánuði.

Greint var frá komu krónprinsins, sem fer í raun með stjórn Sádi-Arabíu,  til Túnis með skömmum fyrirvara. „Farðu burt morðingi,“ hrópuðu mótmælendur, en þetta eru önnur mótmælin gegn krónprinsinum á jafnmörgum dögum.

Þá héldu mótmælendur uppi spjöldum með slagorðum á borð við „Fólkið vill að Bin Salman verði dæmdur“, „Nei við morðingja jemenskra barna“ og „Þú ert ekki velkominn“.

Ferð krónprinsins til Túnis er hluti af ferð hans um Mið-Austurlönd. Morðið á Khashoggi hefur hins vegar gert gagnrýnisraddir í garð þátttöku Sádi-Arabíu í stríðinu í Jemen háværari. „Það er ómannúðlegt að sjá arabískan leiðtoga drepa bræður sína í Jemen og morðið á blaðamanninum er bara dropinn sem fyllir mælinn,“ hefur AFP-fréttastofan eftir mótmælandanum Basma Rezgui sem veifaði rauðblettóttri sög.

Sádi-Arabía sætir nú vaxandi gagnrýni alþjóðasamfélagsins vegna morðsins á Khashoggi, en lík blaðamannsins er sagt hafa verið sundurlimað og hafa sádi-arabísk yfirvöld fullyrt að Khashoggi hafi verið myrtur án þeirra vitundar. Í skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar CIA um málið er krónprinsinn hins vegar talinn hafa fyrirskipað morðið.

Gagnrýnin í garð prinsins í Mið-Austurlöndum er þó ekki alls staðar hávær og lofaði til að mynda forseti Egyptalands, Abdel Fattah al-Sisi, órjúfanleg tengsl Sádi-Arabíu og Egyptalands í heimsókn prinsins til landsins fyrr í vikunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert