Fullyrðingar sem stangast á

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, gerði hælisleitendur á landamærum Mexíkó að umtalsefni á fundum með kjósendum í gær. Á fundi í Mississippi sagði hann að þrír landamæraverðir væru alvarlega slasaðir eftir að grjóti var kastað í þá á sunnudag. Til ryskinga kom á landamærunum á sunnudag í San Diego.

Trump sagði að fólkið hafi verið mjög ofbeldisfullt og bandarísk yfirvöld vilji ekki slíkt fólk til Bandaríkjanna.

AFP

Yfirmaður tolla- og landamæravörslu Bandaríkjanna, Kevin McAleenan, gaf út yfirlýsingu í gær þar sem hann sagði starfsmenn stofnunarinnar og aðra embættismenn hafa haft stjórn á afar hættulegum aðstæðum þar sem yfir eitt þúsund manns komu að. Þetta hafi verið gert á öruggan hátt án þess að nokkur hafi hlotið alvarlega áverka beggja vegna landamæranna.

Á sama tíma er hópur hælisleitenda að undirbúa ferðalag frá El Salvardor til fyrirheitna landsins, Bandaríkjanna. Samfélagsmiðlar skipta hér miklu máli þar sem hælisleitendur eiga samskipti sín á milli um hvað þeir eigi að taka með og hvernig eigi að komast yfir landamærin. Frá því í október hafa yfir fimm þúsund hælisleitendur langt land undir fót, þúsunda kílómetra langt ferðalag ýmist fótgangandi eða með rútum, að landamærum Bandaríkjanna. 

AFP

Ein þeirra sem AFP-fréttastofan ræddi við segir að hún hafi frétt af bílalestinni á Facebook og að fólk skiptist á upplýsingum þar sem enginn einn stýrir för. 

Konan vill ekki gefa upp nafn sitt af ótta við að verða fyrir áreitni en hún er ekkja með tvö börn. Áreitni af hálfu glæpamanna sem ráða lofum og lögum í Mið-Ameríku. Skipulögð glæpasamtök sem hika ekki við að beita ofbeldi, myrða, neyða drengi til þess að ganga til liðs við glæpasamtökin og nauðga stúlkum. Ekkjan hafði unnið við að búa til kornkökur (tortillas) og fékk sex Bandaríkjadali í laun á dag. „Við erum fátækt fólk og eigum ekki þessa 8 þúsund Bandaríkjadali (milljón krónur) sem þessir sléttuúlfar (þar vísar hún til smyglara) krefjast.“ Hún segir öryggið meira í bílalestinni. 

AFP

Önnur móðir, sem neyddist til þess að yfirgefa heimili sitt vegna hótana glæpamanna, segist hafa ákveðið að freista gæfunnar í þeirri von að börn hennar 12 og 14 ára eigi möguleika á betri framtíð. Glæpamennirnir eru með eiginmann hennar í haldi líkt og svo marga aðra karlmenn í Mið-Ameríku.

Á sama tíma og fólk leitar eftir upplýsingum á samfélagsmiðlum áður en lagt er af stað er þar einnig að finna upplýsingar um ömurlegar aðstæður þeirra sem hafa náð til landamæra fyrirheitna landsins. 

Mikill troðningur sé við landamæri Mexíkó og enga aðstoð sé að fá. Greiða þurfi 50 Bandaríkjadali fyrir hvert barn sem fari yfir landamærin til Mexíkó og eru margir farnir að kvarta yfir lygum á samfélagsmiðlum þar sem staða hælisleitanda hafi verið fegruð. 

Kona á fimmtugsaldri sem er með tvo syni með sér, 16 og 20 ára, segir við fréttamenn AFP að þau hafi verið handtekin í Mexíkó og hneppt í varðhald. En hún vill ekki gefa upp nafn sitt af ótta við MS-13 glæpasamtökin sem eiga upptök sín í Kaliforníu en hafa víkkað út starfsemi sína til Mið-Ameríku. Þau hafi þegar myrt frænda hennar og ítrekað hótað henni.

MS-13 glæpasamtökin eru samtök sem Donald Trump nefnir oft og segir að liðsmenn þeirra hafi smyglað sér inn í bílalestir hælisleitenda. 

AFP

En þrátt fyrir aðstæður hælisleitendanna í Mexíkó virðist það hafa lítil áhrif á ferðalög fólks. Verið er að undirbúa brottför hóps frá El Salvador 2. janúar og þegar hafa 200 manns skráð sig.

Trump segir að enginn vafi leiki á því að einhverjir hælisleitendanna sem hermenn sprautuðu táragasi á hafi gripið annarra manna börn til þess að verja sig. Trump hótar því að loka landamærunum í langan tíma en hann lét ummælin falla þegar hann varði notkun táragass á fólkið á sunnudag. 

Frétt Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert