Manafort heimsótti Assange í sendiráðið

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, og Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donald …
Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, og Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donald Trumps Bandaríkjaforseta, eru sagðir hafa átt leynilega fundi í sendiráði Ekvador í Lundúnum. AFP

Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donald Trumps Bandaríkjaforseta, fundaði með Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, í sendiráði Ekvador í London fjórum mánuðum áður en WikiLeaks birti tölvupósta frá Demókrataflokknum sem rússneskir tölvuþrjótar höfðu stolið.

Þetta fullyrðir dagblaðið Guardian, sem segir heimsókn Manafort í sendiráðið hafa átt sér stað á svipuðum tíma og hann gekk til liðs við framboð Trumps.

Blaðið hefur eftir heimildamönnum að Manafort hafi farið að hitta Assange í þrígang, árið 2013, 2015 og vorið 2016, en á þeim tíma var hann lykilmaður í kosningabaráttu Trumps.

Ekki liggur fyrir hvers vegna Manafort hafi viljað eiga fundi með Assange, né heldur hvað þeim fór á milli. Síðasti fundur þeirra er engu að síður sagður líklegur til að vekja áhuga Robert Muellers, sérstaks saksóknara bandarísku alríkislögreglunnar FBI á meintum afskiptum rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningunum 2016.

Fundaði með Assange 4 mánuðum fyrir birtingu WikiLeaks

Heimildamaður Guardian segir Manafort hafa farið að hitta Assange í mars 2016. Nokkrum mánuðum síðar birti WikiLeaks mikið magn tölvupósta frá bandaríska Demókrataflokknum sem rússneska leyniþjónustan er grunuð um að hafa stolið.

Manafort, sem var fangelsaður á þessu ári, neitar alfarið að tengjast þjófnaðinum á tölvupóstinum og segir fullyrðingar um slíkt vera 100% rangar, samkvæmt svörum sem lögfræðingur Manafort sendi Guardian.

Assange neitaði því þá í röð Twitter-skilaboða að þeir Manfort hafi hist. Segir hann fullyrðingar þess efnis vera blekkingu.

Mana­fort var í ágúst dæmd­ur fyr­ir fjár­svik í tengsl­um við störf sín sem póli­tísk­ur ráðgjafi í Úkraínu. Hann komst síðan að samkomulagi við Mueller um að veita FBI upplýsingar um afskipti Rússa af forsetakosningunum. Greint var hins vegar frá því í gær að Manafort hafi brotið það samkomulag með því að ljúga og því sé engin ástæða til að fresta refs­ingu hans, en Manafort var sak­felld­ur fyr­ir skattsvik, banka­svik og fyr­ir að hafa ekki greint frá inni­stæðum hjá er­lend­um bönk­um í kjöl­far sam­komu­lagsins við Mu­ell­er.

Lög­menn Mana­fort segja aft­ur á móti að þeir telji að upp­lýs­ing­arn­ar sem hann hafi lagt fram séu trú­verðugar.

Meðal vel þekktra gesta í sendiráðinu

Guardian hefur eftir tveimur heimildamönnum að Manfort hafi fyrst heimsótt sendiráðið tveimur árum eftir að Assange leitaði þar hælis. Þá kemur fram í skjölum Senain, leyniþjónustu Ekvadors, að Paul Manafort sé meðal vel þekktra gesta í sendiráðinu. Þá er einnig minnst á „Rússa“ sem gesti þar.

Heimsókn Manafort í sendiráðið í mars 2016 varði í um 40 mínútur og var ekki skráð hjá öryggisverði sendiráðsins líkt og venja er og er starfsfólk sendiráðsins sagt hafa verið ómeðvitað á þeim tíma um hlutverk hans í framboði Trumps.

Segir Guardian fréttirnar af heimsóknum Manafort í sendiráðið geta varpað nýju ljósi á atburðina sem leiddu til birtingar WikiLeaks á þúsundum tölvupósta sem leyniþjónusta rússneska hersins GRU hafði stolið frá Demókrataflokknum. Hefur Hillary Clinton mótframbjóðandi Trumps sagt birtingu póstanna hafa átt sinn þátt í að hún tapaði kosningunum. 

Taldi Trump ólíklegri til að krefjast framsals

Samkvæmt heimildamönnum nær kunningsskapur Manafort og Assange ein fimm ár aftur í tímann, til þess tíma er Manafort vann fyrir Viktor Yanukovych, þáverandi forseta Úkraínu, sem var hliðhollur rússneskum stjórnvöldum.

Hefur Guardian eftir einum heimildamanni sem þekkir vel til WikiLeaks að Assange kunni að hafa viljað spilla kosningaframboði Demókrataflokksins þar sem hann hafi talið stjórn Trumps ólíklegri til að óska eftir framsali hans sem njósnara. Sá möguleiki hefur vofað yfir Assange frá 2010 er hann birti leyniskjöl bandaríska utanríkisráðuneytisins á WikiLeaks.

Samkvæmt skýrslu Christopher Steele, fyrrverandi liðsmanns bresku leyniþjónustunnar MI6, var Manafort í „hringiðu vel undirbúins samsæris“ sem byggði á samstarfi framboðs Trumps og rússneskra ráðamanna. Sagði Steele þá hafa haft sameiginlegan hag af því að Clinton tapaði.

Í minnisblaði sem hann skrifaði fljótlega eftir að tölvupóstarnir voru birtir skrifaði Steele: „Netþjófnaðurinn var framkvæmdur með fullri vitund og stuðningi Trumps og hátt settra liðsmanna framboðs hans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert