Rússar fjölga í herliði við landamærin

AFP

Rússar hafa fjölgað mikið í herliði sínu við landamæri Úkraínu eftir að úkraínska þingið samþykkti að lýsa yfir herlögum til 30 daga í landinu í gærkvöldi.

Herlögin voru sett í kjölfar þess að Rússar hertóku þrjú úkraínsk herskip skammt frá Krímskaga um helgina, en Rússar sökuðu skipin um að hafa farið inn í rússneska landhelgi án heimilda.

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, hefur varað Úkraínumenn við því að grípa til frekari gáleysislegra aðgerða, eins og hann orðaði það.

Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, sagði í dag að fjölgun herliðs Rússa við landamærin væri hótun um alvöru stríð.

„Fjöldi rússneskra skriðdreka við landamærin hefur þrefaldast,“ sagði Poroshenko í viðtali í dag. „Einnig hefur verið fjölgað mikið í herliði við landamærin og hafa hersveitir dreift sér alls staðar meðfram þeim.“

Staðan sem upp er komin nú er afleiðing vax­andi tregðu í sam­skipt­um ríkj­anna vegna skipaum­ferðar um Asovs­haf, inn­hafs úr Svarta­hafi sem ligg­ur milli Krímskaga og meg­in­lands Úkraínu í norðri og Rúss­lands í austri.

Spenn­an hef­ur farið stig­vax­andi á svæðinu allt þetta ár og hafa úkraínsk stjórn­völd ít­rekað sakað Rússa um að stöðva skip sem séu að sigla til og frá höfn­um Úkraínu við Asovs­haf, sér­stak­lega þau skip sem komi frá Mariupol og Ber­dy­ansk. Full­yrða þau raun­ar að mark­miðið sé að spilla fyr­ir viðskipt­um.

Rúss­ar saka á móti úkraínsk yf­ir­völd um áreitni í garð rúss­neskra skipa. Segja rúss­nesk yf­ir­völd þeirra at­hug­an­ir á úkraínsk­um skip­um hins veg­ar vera í fullu sam­ræmi við lög og gerð til þess að tryggja ör­yggi á svæðinu.

mbl.is