Pútín segir átökin sviðsett

Í kjölfar árásarinnar samþykkti úkraínska þingið að setja á herlög …
Í kjölfar árásarinnar samþykkti úkraínska þingið að setja á herlög í landinu til þrjátíu daga. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sakar Petro Porósjenkó, forseta Úkraínu, um að hafa sviðsett átök úkraínskra herskipa við Rússa við Krímskaga til þess að auka vinsældir sínar fyrir forsetakosningar í Úkraínu á næsta ári. BBC greinir frá.

Rússneska leyniþjónustan FSB hóf skothríð á tvö úkraínsk herskip og hertók þau á sunnudag. Nokkrir úkraínskir hermenn eru sagðir hafa særst í árásinni. Í kjölfarið samþykkti úkraínska þingið að setja á herlög í landinu til þrjátíu daga.

Pútín segir Porósjenkó viljandi hafa aukið spennuna á milli landanna með atvikinu. Porósjenkó hefur sjálfur sagt að Úkraína eigi á hættu að lenda í stríði við Rússa.

mbl.is