Þotan var ekki flugfær

Þota Lion Air hefði ekki átt að vera í notkun vegna ítrekaðra tæknibilana og hefði aldrei átt að fá heimild til þess að fara í síðustu flugferðina. Þetta segja indónesísk flugmálayfirvöld í nýrri skýrslu. Þar er skortur á eftirliti og öryggismálum hjá flugfélaginu gerður að umtalsefni.

Boeing 737 MAX-þotan hvarf af ratsjám um 13 mínútum eftir flugtak í Jakarta 29. október og brotlenti í Javahafi stuttu eftir að hafa óskað eftir því að snúa til baka til Jakarta.

Í frumskýrslunni er engu slegið föstu hvað varðar orsök slyssins en allir um borð, 189 manns, fórust. Tekist hefur að bera kennsl á 125 þeirra sem létust. Lokaskýrslan er ekki væntanleg fyrr en á næsta ári. 

Samgöngumálayfirvöld segja í skýrslunni að Lion Air hafi ekki tekið flugvélina úr umferð þrátt fyrir ítrekuð vandamál sem ekki hafi tekist að laga. Næsta flug á undan var frá Balí til Jakarta og þá komu upp tæknileg vandamál. Þrátt fyrir það ákvað flugmaðurinn að halda ferðinni áfram, segir yfirmaður flugöryggismála í Indónesíu, Nurcahyo Utomo.

„Flugvélin var ekki lengur flugfær og hefði ekki átt að halda áfram að fljúga,“ segir Utomo. 

Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar munu væntanlega beina kastljósinu að aðalkerfi flugvéla af þessari gerð en flugvélarnar eru meðal nýjustu og framsæknustu í flugheiminum í dag. Áður hefur komið fram að talið er að skynjarar vélarinnar hafi misreiknað stöðu vélarinnar í lofti og beint nefi hennar niður með þeim afleiðingum að hún lækkaði flugið gríðarlega hratt. Flugmönnunum hafi ekki tekist að ná stjórn á vélinni, þrátt fyrir að hafa tekið hana af sjálfstýringu. Boeing hefur vegna þessa gefið út sérstaka tilkynningu til flugfélaga um hvernig eigi að bregðast við í aðstæðum sem þessum. 

Í skýrslunni er staðfest það sem áður hefur komið fram að flugriti hafi skynjað vandamál tengd skynjurum vélarinnar (AoA). Eins hafi stýri þotunnar (stick shaker) titrað og þar með varað við kerfisbilun nánast allan tímann sem flugvélin var á lofti. Ekki hefur tekist að finna flugritann sem geymir upptökur úr flugstjórnarklefanum. 

Lagt er til í skýrslunni að Lion Air bæti öryggismál flugfélagsins og tryggi að allt utanumhald sé með réttum hætti. 

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert