Yfir 500 lík í gröfinni

Gríðarleg eyðilegging blasir enn við í Raqqa.
Gríðarleg eyðilegging blasir enn við í Raqqa. AFP

Fjöldagröf með líkamsleifum yfir fimm hundruð einstaklinga hefur fundist í Raqqa, sem áður gegndi hlutverki höfuðborgar kalífaveldis vígasamtakanna Ríkis íslam í Sýrlandi. 

Í frétt Al Jazeera kemur fram að uppgröfturinn hafi staðið yfir í á annan mánuð og verður haldið áfram. Fastlega er gert ráð fyrir því að fleiri lík eigi eftir að finnast í gröfinni. Raqqa er í norðurhluta Sýrlands og var borgin um tíma undir yfirráðum vígasamtakanna. Sýr­lensku lýðræðis­sveit­irnar (SFD), með stuðningi Bandaríkjahers, endurheimtu borgina fyrir rúmu ári.

Ríki íslam gerði Raqqa að höfuðstöðvum kalíf­a­dæm­is síns snemma árs 2014 og tók þá upp öfga­kennda túlk­un á kenn­ing­um íslam.

Liðsmenn sam­tak­anna stóðu þar fyr­ir kross­fest­ing­um, af­tök­um og ýms­um pynt­ing­um til að vekja ótta með þeim íbú­um borg­ar­inn­ar sem voru and­snún­ir sam­tök­un­um.

Enn er verið að finna fjöldagrafir í borginni og í næsta nágrenni. Þessi fjöldagröf er nefnd eftir hverfinu þar sem hún er, Panorama, og er stærst þeirra níu fjöldagrafa sem fundist hafa í borginni en talið er að yfir 1.500 hafi verið grafnir í henni. Um er að ræða almenna borgara og félaga í vígasamtökunum. 

mbl.is