Játaði að hafa myrt 90 konur

Samuel Little er talinn vera á meðal afkastamestu raðmorðingja í …
Samuel Little er talinn vera á meðal afkastamestu raðmorðingja í bandarískri glæpasögu. AFP

Dæmdur morðingi sem afplánar lífstíðarfangelsisdóm fyrir morð á þremur konum sætir nú rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) eftir að hafa játað að fremja 90 morð á fjögurra áratuga tímabili.

Fanginn heitir Samuel Little, er 78 ára og er hann talinn vera á meðal afkastamestu raðmorðingja í bandarískri glæpasögu.

Samkvæmt upplýsingum frá FBI hefur náðst að tengja Little við að minnsta kosti 34 morð og rannsókn málsins er í fullum gangi við að sannreyna hvort hann hafi framið öll morðin sem hann hefur játað og eiga að hafa átt sér stað víðs vegar í Bandaríkjunum, allt frá Los Angeles á vesturströndinni til Miami á austurströndinni.

Little hefur setið í fangelsi frá 2012 þegar hann var handtekinn í athvarfi fyrir heimilislausa í Kentucky vegna fíkniefnabrots. DNA-sýni sem tekið var af honum af því tilefni tengdi hann við óleyst morðmál þriggja kvenna í Los Angeles á níunda áratugnum.

Little játaði morðin 90 í samtali við lögreglumann í Texas þegar óleyst morðmál barst í tal en upphaflegur tilgangur samtals þeirra var beiðni Little um að vera færður milli fangelsa.

Talið er að Little hafi einsett sér að myrða konur í viðkvæmri félagslegri stöðu, það er konur sem stunduðu vændi eða voru háðar fíkniefnum. Oftast nær tókst ekki að bera kennsl á lík kvennanna og rannsókn á morðunum fjaraði fljótt út.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert