Öldungadeildin gengur gegn Trump

Barn í Jemen en talið er að 85 þúsund börn …
Barn í Jemen en talið er að 85 þúsund börn yngri en fimm ára hafi soltið til bana þar á síðustu þremur árum. AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt að leggja fram tillögu um að Bandaríkin hætti stuðningi við hersveitir Sádi-Araba í Jemen. Gengur þetta gegn skoðunum Bandaríkjaforseta og ráðherra.

Átök hafa geisað árum saman í Jemen á milli rík­i­ss­tjórnarinnar sem nýt­ur stuðnings Sádi-Ar­aba, og húta sem njóta stuðnings klerka­stjórn­ar­inn­ar í Íran og hafa náð stór­um hluta Jem­en á sitt vald, meðal ann­ars höfuðborg­inni Sanaa. Sádi-Ar­ab­ía og fleiri ar­ab­a­ríki hafa gert loft­árás­ir á yf­ir­ráðasvæði upp­reisn­ar­mann­anna og notið stuðnings stjórn­valda í Banda­ríkj­un­um, Bretlandi og Frakklandi.

Allt að 85 þúsund börn yngri en fimm ára hafa soltið til bana eða dáið úr far­sótt­um í Jemen á síðustu þrem­ur árum. Ótt­ast er að hung­urs­neyð herji á 14 millj­ón­ir Jemena ef ekk­ert verður að gert. Íbúar lands­ins eru 28 millj­ón­ir tals­ins og er því helm­ing­ur þjóðar­inn­ar í bráðri lífs­hættu. Þetta er meðal þess sem kem­ur fram í nýj­um upp­lýs­ing­um frá mannúðarsam­tök­un­um Save the Children.

Re­públi­kan­ar eru með 53 sæti í öld­unga­deild­inni en demó­krat­ar 47. 

Tillagan var samþykkt með 63 atkvæðum gegn 37 og þykir áfall fyrir Donald Trump sem hefur verið talsmaður þess að Bandaríkin styddu hersveitir Sádi-Arabaíu í Jemen. Bæði utanríkis- og varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna, Mike Pompeo og Jim Mattis, hvöttu þingmenn í öldungadeildinni til þess að greiða atkvæði gegn tillögunni en atkvæðagreiðslan kemur í kjölfar morðsins á blaðamanninum Jamal Khashoggi á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbul. Khashoggi var búsettur í Bandaríkjunum en var myrtur þegar hann kom á ræðismannsskrifstofuna 2. október. 

Tengsl Bandaríkjanna og Sádi-Arabíu voru rædd á fundi í öldungadeildinni í gær og þar kom fram hörð gagnrýni á forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar (CIA), Ginu Haspel. Hún á að hafa hlustað á upptökur af morðinu og rannsakað gögn málsins. Hún var ekki viðstödd umræðurnar í gær og sagði einn þingmaður að fjarvera hennar jafngilti því að hún væri að hylma yfir með morðingjum. 

Frétt BBC

Mike Pompeo mætir á fund þingmanna í öldungadeildinni í gær.
Mike Pompeo mætir á fund þingmanna í öldungadeildinni í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert