Banna rússneskum körlum að koma til landsins

Úkraínskur hermaður í eftirlitsferð.
Úkraínskur hermaður í eftirlitsferð. AFP

Rússneskum karlmönnum á aldrinum 16-60 ára verður meinað að koma til Úkraínu samkvæmt herlögum sem þar eru nú í gildi. Undantekningin verður að vera af „mannúðarástæðum“ samkvæmt stjórnvöldum í Úkraínu, s.s. ef þeir þurfa að ferðast vegna jarðarfara. 

Rússnesk stjórnvöld segjast ekki hyggja á hefndaraðgerðir vegna þessa. Herlög hafa nú tekið gildi á nokkrum svæðum í Úkraínu og munu þau gilda til 26. desember. Lögin voru sett á í kjölfar þess að Rússar hertóku úkraínsk herskip í Azovhafi og handtóku áhafnir þeirra. Sögðu þeir herskipin í landhelgi Rússa sem Úkraínumenn mótmæla harðlega og segja það brot á alþjóðalögum.

Spenna hefur magnast hratt milli ríkjanna tveggja við Svartahaf síðustu daga. 

Forseti Úkraínu segir ferðabann rússneskra karlmanna miða að því að koma í veg fyrir að rússneskur einkaher verði stofnaður innan landamæra landsins. Hann segist óttast að stríð muni bresta á milli ríkjanna.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert