25 enn saknað eftir gróðureldana

Björgunarmenn bera á milli sín eitt fórnarlamba Camp-gróðureldanna.
Björgunarmenn bera á milli sín eitt fórnarlamba Camp-gróðureldanna. AFP

Verulega hefur fækkað í hópi þeirra sem saknað er eftir gróðureldana í Kaliforníu. Einungis 25 manns er nú saknað, en mest voru rúmlega 1.2000 manns á þeim lista.

Á föstudag voru 49 á skrá hjá lögreglustjóra Butte-sýslu og hafði fjöldinn þá hrapað úr 500 frá því viku fyrr, að því er BBC greinir frá. Tala látinna hefur hins vegar lítið breyst og er staðfest að 88 manns hafi farist í eldunum.

Camp-gróðureldarnir sem kviknuðu 8. nóvember eru þeir mannskæðustu í sögu Kaliforníuríkis og ollu mikilli eyðileggingu í bænum Paradise er þeir fóru þar yfir. Hafa björgunarmenn undanfarið unnið að því að fara í gegnum rústir 18.000 heimila í bænum.

Eldarnir breiddust út með ógnarhraða og höfðu íbúar Paradise aðeins örskamma stund til að flýja heimili sín áður en bærinn brann til grunna.

Lögregla í Butte-sýslu aflétti á sunnudag fyrirskipun um brottflutning frá sumum þeirra svæða sem illa urðu úti í eldunum. Enn hefur hins vegar ekki verið opnað fyrir umferð til Paradise og hafa íbúar verið varaðir við að snúa aftur vegna hættu á skyndiflóðum og aurskriðum í kjölfar mikilla rigninga þar undanfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert