Dómur þyngdur í nauðgunarmáli

Jean-Claude Arnault (fyrir miðju) þegar hann mætti fyrir dóm á …
Jean-Claude Arnault (fyrir miðju) þegar hann mætti fyrir dóm á millidómstigi um miðjan síðasta mánuð. Dómstóllinn þyngdi fyrr í dag dóminn yfir honum og sakfelldi fyrir tvær nauðgaðir á sömu konu síðla árs 2011, en ekki bara eina eins og gert var á lægra dómstigi. AFP

Jean-Claude Arnault var fyrir rétti í Svíþjóð fyrr í dag sakfelldur fyrir tvær nauðganir á sömu konu síðla árs 2011 og gert að greiða henni 215 þúsund sænskar krónur, sem samsvarar tæpum þremur milljónum íslenskra króna, í miskabætur auk þess sem refsing hans var þyngd í tvö og hálft ár.

Arnault, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi frá 24. september, var 1. október sakfelldur á lægra dómstigi fyrir nauðgun á konu í október 2011 og hlaut þá tveggja ára fangelsi. Bæði verjandi hans og ríkissaksóknari áfrýjuðu þeim dómi, verjandinn krafðist sýknu en ríkissaksóknari að Arnault yrði einnig dæmdur fyrir að nauðga sömu konu í desember 2011 og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga.

Hirðrétturinn í Svíþjóð, sem er sambærilegur við Landsrétt hérlendis, komst í gær að þeirri niðurstöðu að sakfella bæri Arnault fyrir báðar nauðganir enda hafi lýsingar konunnar á atburðum verið trúverðugar og fjöldi vitna staðfest upplifun hennar.

„Umbjóðandi minn er afar þakklát og henni er létt,“ segir Elisabeth Massi Fritz, lögmaður konunnar í samtali við SVT.

„Að mínu mati er þetta réttlátur dómur,“ segir Christina Voigt ríkissaksóknari.

„Umbjóðanda mínum er alvarlega brugðið. Hann er bæði hissa og leiður. Hann ítrekar sakleysi sitt,“ segir Björn Hurtig, verjandi Arnault og tekur fram að hann muni áfrýja dómnum til Hæstaréttar, en líkt og hérlendis þarf að sækja um leyfi til dómstólsins fyrir slíku.


Óljóst er hvaða áhrif dómurinn hafi á Sænsku akademíuna (SA) og stöðu Katarinu Frostenson sem gift er Arnault. Sara Danius, fyrrverandi ritari SA, ítrekaði í síðustu viku að best væri að skipta öllum meðlimum SA út eftir þá krísu sem þar hefur ríkt síðan upp komst um athæfi Arnault. Gagnrýni hennar beindist ekki síst að forverum hennar í starfi, þeim Peter Englund, Horace Engdahl og Sture Allén, sem á síðustu 20 árum hafa ítrekað verið upplýstir um ásakanir þess efnis að Arnault beitti konur kynferðisofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert