Nefna sendiráðsgötuna eftir Khashoggi

Jamal Khashoggi í desember síðastliðnum. Hverfisráð í Washington vill nú …
Jamal Khashoggi í desember síðastliðnum. Hverfisráð í Washington vill nú nefna götu í höfuðið á honum. AFP

Hverfisráð í þeim hluta Washington þar sem sendiráð Sádi-Arabíu er til húsa samþykkti í síðustu viku að gatan sem sendiráðið stendur við verði nefnd Jamal Khashoggi Way. Vilja þeir með því  koma sádi-arabískum ráðamönnum í skilningu um að morðið á Khashoggi, sem var sádi-arabískur blaðamaður sem starfaði fyrir Washington Post sé ekki gleymt.

Khashoggi, sem var gagnrýninn í garð stjórnvalda í heimalandi sínu, var myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í október og og er krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, talinn hafa fyrirskipað morðið.

Sú ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta að aðhafast ekkert í málinu og viðhalda óbreyttum samskiptum við ráðamenn í Sádi-Arabíu hefur valdið reiði margra, m.a íbúa í Washington.

CNN segir íbúa vilja með nafngiftinni heiðra minningu Khashoggis, auk þess sem um viss mótmæli sé að ræða. Málið hefur þegar verið samþykkt af hverfisráðinu sem féllst á að hluti af götunni, sem í dag ber nafnið New Hampshire Avenue NW, verði endurskírður Jamal Khashoggi Way.

CNN hefur eftir James Hartnett, einum stjórnarmanna í hverfisráðinu sem venjulega fer með málefni á borð við bílastæði og sorphirðu, að nefndarmenn séu hneykslaðir á morðinu á Khashoggi og viðbrögðum Trump þar við. Þeim hafi þess vegna fundist þeir verða að bregðast við.

„Ég held að okkar áhyggjur [...] og þörf fyrir að láta til okkar taka í máli sem dregur dilk á eftir sér á alþjóðavettvangi, séu að við erum verulega vonsvikin yfir skorti á áhyggjum,“ sagði Hartnett og vísaði þar til viðbragða forsetans. „Það er okkar trú [...] að þegar er skortur á forystu þarf einhver að grípa inn í og tryggja að samfélagið viti að þetta er eitthvað sem við tökum alvarlega.“

Kveðst Harnett vona að nafngiftin verði Sádi-Arabíu stöðug áminning um að Bandaríkin gleymi ekki hvað varð um Khashoggi. Auk þess sem hún staðfesti hollustu Bandaríkjanna gagnvart frelsi fjölmiðla.

„Með þessu verða Sádi-Arabar að muna alla daga. Þessi árás á fjölmiðla er ófyrirgefanleg og skaðar sannleikann,“ sagði Harnett.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert