Segir Trump ætla að uppfylla óskir Kim

Kim Jong-un og Donald Trump hittust á leiðtogafundi í Singapúr …
Kim Jong-un og Donald Trump hittust á leiðtogafundi í Singapúr 12. júní. Þeir munu væntanlega funda á ný í byrjun næsta árs. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti vill að Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, viti að hann kann vel við hann og að hann ætli að uppfylla óskir hans. Þetta sagði Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, í gær eftir fund sinn með Trump á ráðstefnu G20-ríkjanna í Argentínu.

Moon, sem vonast til að fá Kim í heimsókn til Seoul fyrstan leiðtoga Norður-Kóreu, sagði Trump hafa beðið sig um að koma þessum skilaboðum áleiðis.

„Skilaboðin eru þau að Trump forseti lítur Kim formann jákvæðum augum og kann vel við hann,“ sagði Moon við fjölmiðla. „Hann bað mig því að láta Kim vita að hann vill útfæra restina af samkomulagi þeirra og að hann ætlar að uppfylla óskir Kims.“

Dagblaðið Guardian segir að þó að áherslan í máli Moon hafi verið á hve vel Trump kunni við Kim hafi hann ekki tekið jafn sterkt til orða og Trump gerði sjálfur á kosningafundi með stuðningsmönnum í september. Þar lýsti hann „fallegum“ bréfum sem þeir Kim hefðu skipst á og sagði: „Það tókust með okkur ástir, ókei?“

Fundar líklega með Kim í byrjun næsta árs

Trump, sem fundaði með Kim í Singapore í júní um að Norður-Kórea láti af kjarnorkuáformum sínum, sagði á laugardag að þeir Kim muni að öllum líkindum funda aftur í janúar eða febrúar á næsta ári og að þrír staðir komi til greina.

„Okkur semur mjög vel,“ sagði Trump. „Samskipti okkar eru góð,“ bætti hann við og kvaðst mundu bjóða Kim til Bandaríkjanna á einhverjum tímapunkti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert