Foringi foringjanna handtekinn

Settimino Mineo sést hér á milli tveggja lögregluþjóna skömmu eftir …
Settimino Mineo sést hér á milli tveggja lögregluþjóna skömmu eftir handtökuna í Palermo í dag. AFP

Lögreglan á Ítalíu hefur handtekið Settimo Mineo, sem er sagður vera nýr foringi sikileysku mafíunnar. Fjörutíu og fimm aðrir voru einnig handsamaðir í aðgerðum lögreglunnar. 

Mineo, sem er áttræður skartgripasali, var handtekinn snemma morguns í Palermo. Fréttir herma að hann hafi verið kjörinn guðfarðir Cosa Nostra, sikileysku mafíunnar, á fundi mafíunnar sem fór fram í maí, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

Fjölmiðlar á Ítalíu segja að hann sé arftaki Toto Riina sem lét lífið í fangaklefa fyrir um það bil einu ári. 

Mennirnir sem eru í haldi lögreglu eru sakaðir um fjárkúgun, brot á vopnalögum, íkveikju og aðra glæpsamlega iðju. 

Cosa Nostra tókst að endurnýja forystusveit sína, sem kallast Cupola, eftir að hafa ekki fundað árum saman, að því er segir í ítölskum fjölmiðlum. Guðfaðirinn er þekktur sem "cap dei capi" sem útleggja má á íslensku sem „foringi foringjanna“. 

Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, hrósaði herlögreglunni (í. Carabinieri) á Twitter. Hann sagði að henni hefði tekist að leysa upp nýja forystusveit Cosa Nostra. 

Ítalska lögreglan hefur gengið hart fram gegn Cosa Nostra á undanförnum árum. Það hafði þó verulega lamandi áhrif á samtökin er Riina var fangelsaður, en eftir að hann lést í lok síðasta árs var nýrri forystu komið á svo hægt væri að taka við skipunum frá nýju „guðföður“.

Riina var alræmdur fyrir hrottaskap og er talið að hann hafi haft um 150 manns­líf á sam­visk­unni. M.a. var hann talinn bera ábyrgð á því að saksóknararnir Giovanni Falcone og Paolo Borsellino létust í sprengjuárásum mafíunnar árið 1992. Hálfu ári síðar var Riina handtekinn.

Ítalska dagblaðið La Repubblica segir Mineo hafa verið handtekinn árið 1984 að skipan Falcone og á hann þá að hafa sagt rannsakendum að hann vissi ekkert um hvað þeir væru að tala. Hann hefði „fallið niður úr skýjunum“.

Mineo var engu að síður dæmdur í fimm ára fangelsi í tengslum við þá rannsókn. Hann var svo handtekinn á ný árið 2006 og sætti þá 11 ára fangelsisvist.

Er lögregla sögð hafa fundið Mineo í dag fyrir tilstilli uppljóstrara, en ítalskir fjölmiðlar segja hann forðast að nota farsíma, auk þess sem hann fari ferða sinna fótgangandi frekar en í bíl. Er hann þá sagður hafa stjórnað starfsemi mafíunnar frá Pagliarelli-hverfinu í miðbæ Palermo.

Riina er sagður hafa metið Mineo mikils, en hann lifði af árás árið 1982 sem kostaði bróður hans Giuseppe lífið. Þriðji Mineo bróðirinn Antonino lést svo í skotárás skömmu síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert