Fyrirsæta eða fágætt hvítt hreindýr?

Hreindýrskálfurinn stillti sér upp fyrir framan myndavélina eins og þaulvön …
Hreindýrskálfurinn stillti sér upp fyrir framan myndavélina eins og þaulvön fyrirsæta. Ljósmynd/Instagram

Norskur ljósmyndari náði mögnuðum myndum af fágætum hvítum hreindýrskálfi þegar hann var í fjallgöngu í norðurhluta Noregs á dögunum.

Mads Nordsvee birti myndirnar af kálfinum á Instagram-síðu sinni á mánudag og hafa yfir 20.000 manns líkað við myndirnar. Nordsvee segir að kálfurinn hafi fallið vel inn í umhverfið þar sem allt var á kafi í snjó og því hafi reynst erfitt að greina hann frá snjónum fyrst um sinn.

„Hann nálgaðist mig og við horfðumst í augu. Hann var mjög rólegur þegar hann sá að ég vildi honum ekkert illt,“ segir Nordsvee. Því næst stillti kálfurinn sér upp eins og hann vissi hvað til stæði. „Hann stillti sér upp fyrir myndatöku, hann var mjög forvitinn og fyndinn, eins og lítill landkönnuður.“

Litarhaft hreindýrsins er tilkomið vegna genagalla og hefur þau áhrif að litafrumur dýrsins verða óvirkar. Tegundin er þó ekki skilgreind sem albínóar. 

Samkvæmt gamalli skandinavískri þjóðtrú er það talið mikið happamerki að berja hvítt hreindýr augum. Kálfurinn yfirgaf Nordsvee og vini hans stuttu eftir myndatökuna en hann lýsir augnablikinu sem töfrandi og algjöru ævintýri.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert