Nauðguðu 150 konum og stúlkum

AFP

Yfir 150 konur og stúlkur hafa undanfarna 12 daga stigið fram og greint frá kynferðislegu ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir í Suður-Súdan.

Vopnaðir menn, margir í einkennisbúningum, gerðu árásirnar skammt frá borginni Bentiu í norðurhluta landsins. Konunum og stúlkunum var nauðgað eða þær beittar öðru kynferðisofbeldi af hálfu mannanna. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu Henrietta Fore, framkvæmdastjóra Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna UNICEF, yfirmanns hjálparstarfs SÞ, Mark Lowcock, og framkvæmdastjóra Mann­fjölda­sjóðs Sam­einuðu þjóðanna (UN­FPA), Natalia Kanem. 

Stofnanirnar þrjár fordæma þessar viðbjóðslegu árásir og krefjast þess að yfirvöld í Suður-Súdan tryggi að árásarmennirnir verði dregnir fyrir dóm.

Mannúðarsamtökin Læknar án landamæra (MSF) greindu frá því í síðustu viku að 125 konum og stúlkum hefði verið nauðgað þegar þær voru á göngu að sækja neyðaraðstoð hjá miðstöðvum sem settar hafa verið upp af alþjóðlegum hjálparstofnunum þar sem íbúar geta sótt matvæli og aðra neyðaraðstoð.

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, fordæmir þessar árásir og segir þær áminningu um hversu mikilli hættu konur og stúlkur eru í. Hann hvetur stríðandi fylkingar og leiðtoga framtíðarinnar í S-Súdan til þess að tryggja öryggi almennra borgara og refsa þeim sem fremja slíka glæpi fyrir dómstólum. 

Frá því borgarastyrjöldin hófst í Suður-Súdan árið 2013 hafa borist fregnir af hrottalegum kynferðisglæpum í landinu en á fyrri hluta ársins 2018 var tilkynnt um 2.300 nauðganir. Í flestum tilvikum eru fórnarlömbin konur og stúlkur. Yfir 20% þeirra eru börn. Stofnanirnar þrjár hjá SÞ segja að nauðganirnar séu miklu fleiri því mjög oft er ekki tilkynnt um ofbeldisbrotin. Auk þess að vera nauðgað voru þær húðstrýktar, barðar eða beittar öðru ofbeldi. Fötum þeirra var rænt, skóm og þeim peningum sem þær áttu. Jafnframt voru teknir af þeim matarmiðarnir sem tryggja þeim mataraðstoð. 

Ruth Okello, sem er ljósmóðir á vegum MSF í Suður-Súdan, segist aldrei hafa upplifað slíka fjölgun fórnarlamba kynferðisglæpa og nú en mörg fórnarlambanna leita til Lækna án landamæra eftir læknisaðstoð í kjölfarið. 

-
- AFP
mbl.is