Þúsundir flýja til Jemen

Ástandið í Jemen er stórhættulegt en þó koma þangað þúsundir …
Ástandið í Jemen er stórhættulegt en þó koma þangað þúsundir flóttamanna frá Afríku í ár. AFP

Sífellt fleiri flóttamenn koma nú til Jemen þrátt fyrir að þar ríki mikil neyð og hungursneyð vofi yfir þjóðinni. Talið er að um 150 þúsund flóttamenn verði komnir til Jemen áður en árið 2018 er úti, að mati Sameinuðu þjóðanna. 

Jemen er enn hluti af fjölfarinni leið flóttamanna frá Afríku og til auðugra ríkja við Persaflóann. Smyglarar notfæra sér ringulreiðina sem ríkir í Jemen til að komast hjá öryggisskoðunum og landamæraeftirliti. Því hefur flóttamönnum í Jemen fjölgað um 50% í ár miðað við í fyrra. Talsmaður flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna segir það óvenjulegt og ógnvekjandi að svo margt fólk fari um hættulegt stríðssvæði.

Borgarastríð braust út í Jemen árið 2014 og í mars 2015 hóf hernaðarbandalag undir forystu Sádi-Araba afskipti af því. Hvergi í heiminum er nú meiri neyð en í Jemen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert