Hýsi óæskilega hælisleitendur á afskekktri eyju

Eyjan Lindholm er ekki nema tæpir 7 ferkílómetrar að stærð …
Eyjan Lindholm er ekki nema tæpir 7 ferkílómetrar að stærð og á að hýsa um 100 hælisleitendur. Ljósmynd/Google maps

Óæskilegir hælisleitendur verða hýstir á lítilli og afskekktri eyju með mjög takmörkuðum samgöngum samkvæmt fjárlagafrumvarpi sem danska ríkisstjórnin kynnti á föstudag. Eyjan Lindholm hýsir í dag rannsóknarstofur, hesthús og líkbrennsluofna fyrir rannsóknarmiðstöð í dýrasmitsjúkdómum. „Sé lýsingin ekki nógu óaðlaðandi nú þegar ber önnur ferjan sem þangað gengur nafnið Vírus,“ segir í umfjöllun New York Times um málið.

„Þeir eru óvelkomnir í Danmörku og þeir munu finna fyrir því,“ skrifaði Inger Støjberg ráðherra innflytjendamála á Facebook-síðu sína. Støjberg, sem hefur setið á þingi fyrir Venstre síðan 2001, fjallaði einnig um áform stjórnarinnar í grein í Berlingske Tidende, en miðstöðin á Lindholm var gjaldið sem stjórnvöld greiða þetta árið fyrir stuðning  danska þjóðern­is­flokks­ins Dansk Folkeparti við fjárlagafrumvarpið.  

Støjberg ver ákvörðunina í Berlingske og segir henni ætlað að skilja þá hælisleitendur, sem brotið hafa af sér og þá sem búið er að synja um landvist, en sem dvelja eftir sem áður tímabundið í Danmörku, frá öðrum hópum hælisleitenda í Kærshovedgård-búðunum á Jótlandi.

Um 3 km eru í land frá Lindholm og ætla …
Um 3 km eru í land frá Lindholm og ætla stjórnvöld að takmarka ferjusamgöngur eins og hægt er. Kort/Google

Ætlum að gera þetta eins dýrt og erfitt og hægt er

Lindholm-eyjan er ekki nema tæpir 7 km2 að stærð og liggur í Eystrasaltinu í rúmlega 3 km fjarlægð frá landi og ferjuferðir eru fátíðar. Þar hyggjast stjórnvöld koma upp aðstöðu fyrir 100 hælisleitendur, með möguleika á 25 plássum til viðbótar. Þeim sem þar dvelja verður gert að gefa sig fram daglega í miðstöðinni og varða brot á tilkynningaskyldu fangelsisvist.

„Við ætlum að takmarka fjölda ferjuferða eins og hægt er,“ sagði Martin Henriksen, talsmaður innflytjendamála hjá Dansk Folkeparti, í samtali við TV2-sjónvarpsstöðina. „Við ætlum að gera það eins erfitt og dýrt og hægt er. Þeir sem þar verða eiga ekki mikið af peningum og því dýrari sem ferjumiðinn er því erfiðara verður fyrir þá að komast yfir á meginlandið.“

Kvað hann Dansk Folkeparti helst vilja að hælisleitendinum yrði bannað að yfirgefa eyjuna og að ekki yrðu neinar ferjuferðir milli Lindholm og Kalvhave á Sjálandi, en það „verða samt nokkrar,“ bætti hann við.

Er Støjberg nú sögð vera að athuga hversu mikið er hægt að takmarka samgöngur við eyjuna án þess að brjóta gegn alþjóðalögum. „Ég vil ekki að það verði auðvelt að komast frá eyjunni. Meiningin er að glæpamenn og þeir sem hafa verið dæmdir fyrir glæpi og eru ógn við öryggi ríkisins eigi að dvelja á Lindholm,“ hefur TV2 eftir Støjberg.

Inger Støjberg er ráðherra innflytjendamála. Hún segir að þeir sem …
Inger Støjberg er ráðherra innflytjendamála. Hún segir að þeir sem séu óvelkomnir í Danmörku muni finna fyrir því. AFP

Ekki lokaðir inni en þó í varðhaldi í raun

Til stendur að opna búðirnar á Lindholm árið 2021 og er í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir andvirði um 14 milljarða íslenskra króna til starfsins næstu fjögur árin. Fjármálaráðherrann Kristian Jensen, sem hefur leitt viðræðurnar, segir Lindholm ekki vera fangelsi en að þeir sem þangað eru sendir verði þó að sofa þar.

Sérfræðingar í mannréttindalöggjöf segja enn of snemmt að segja til um það hvort búðir á Lindholm muni brjóta gegn mannréttindalögum og flokkast sem ólögmæt innilokun. Amnesty International telur þó stefna í slíkt. „Myndin sem dregin er upp er að þeir komast ekki af eyjunni. Formlega séð er hægt að segja að þeir séu ekki læstir inni, en þeir eru samt í raun í varðhaldi,“ sagði Claus Juul, lagalegur ráðgjafi fyrir Amnesty International.

Aðrir hafi þá bent á að áætlanir dönsku stjórnarinnar minni á fyrirhugaðar búðir ítalskra stjórnvalda sem Mannréttindadómstóll Evrópu hafnaði á níunda áratug síðustu aldar og Louise Holck, aðstoðarframkvæmdastjóri dönsku mannréttindastofnunarinnar, segir samtökin muni fylgjast mjög vel með hvort brotið verði gegn þeim alþjóðaskuldbindingum sem Danir hafa gengist undir.

Áætlunin hefur líka sætt gagnrýni frá Birthe Rønn, fyrrverandi ráðherra innflytjendamála fyrir Venstre. Miðstöðin sé ekki fangelsi og því megi ekki loka íbúa þar inni eða gera þeim lífið svo leitt að þeir geti ekkert farið sagði Rønn og vísaði til bæði danskra og alþjóðlegra laga.

„Það má ekki og það er ekki hægt. Það á líka eftir að sýna sig að þetta er ómögulegt,“ sagði Rønn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert