Eyddi gögnum af ótta við ákæru

Leslie Moonves.
Leslie Moonves. AFP

Af ótta við að ferli hans í fjölmiðlum væri lokið og að hann yrði ákærður fyrir kynferðisbrot eyddi Leslie Moonves, forstjóri bandaríska fjölmiðlafyrirtækisins CBS, gögnum og reyndi að afvegaleiða rannsóknina, segir í uppkasti að skýrslu sem lagt var fram á fundi stjórnar félagsins.

Skýrslan var unnin af lögmönnum sem CBS réð til starfa og þar kemur fram að stjórnin hafi fulla heimild til þess að neita að standa við 120 milljóna dala starfslokasamning við Moonves.

Moonves var einn af þekktustu og virtustu einstaklingunum í Hollywood áður en hann neyddist til þess að segja af sér í september í kjölfar ásakana um kynferðislega áreitni af hálfu fjölmargra kvenna.

New York Times hefur undir höndum afrit af skýrslunni og birti í gærkvöldi frétt unna upp úr henni. Þar kemur fram að Moonves hafi ítrekað brotið gegn konum kynferðislega, bæði innan sem utan vinnustaðar. Hvort sem það var áður en hann kom til CBS árið 1995 eða eftir það. 

Lögmennirnir sem unnu skýrsluna segjast hafa rætt fjórum sinnum við Moonves við vinnslu skýrslunnar og þeir telji hann hafa vísvitandi logið og hliðrað til sannleikanum til þess að draga úr umfangi ásakana á hendur honum. 

Moonves var sennilega sá áhrifamesti í bandarísku sjónvarpi áratugum saman. Jafnvel áður en hann kom til starfa hjá CBS. Því hann framleiddi meðal annars þætti eins og ER og Friends. Hjá CBS stóð hann á bak við þáttaraðir eins og Survivor og C.S.I. How I Met Your Mother og Big Bang Theory.

Í september gerði hann starfslokasamning við CBS í kjölfar þess að tólf konur greindu frá því í viðtali við The New York er að hann hafi  áreitt þær kynferðislega eða beitt kynferðislegu ofbeldi. 

Í skýrslunni er fjallað um viðtöl lögmannanna við 11 af 17 konum sem þeir vissu til þess að hafi sakað Moonves um ósæmilega hegðun í þeirra garð. Töldu þeir framburð þeirra trúverðuglegan. Meðal annars hafi hann fengið munnmök frá að minnsta kosti fjórum starfsmönnum CBS við aðstæður sem eru afar óviðeigandi og ekkert sem bendir til þess að um náið samband hans við viðkomandi starfsmenn hafi verið að ræða. Hann hafi einfaldlega hringt og farið fram á að viðkomandi starfsmaður veitti honum munnmök. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert