Karlar vanmeta áreitið sem konur sæta

Konur hengja upp spjöld þar sem kynferðislegt ofbeldi er fordæmt. …
Konur hengja upp spjöld þar sem kynferðislegt ofbeldi er fordæmt. Mynd úr safni. AFP

Karlmenn vanmeta verulega hversu mikilli kynferðislegri áreitni konur sæta. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem Ipsos-skoðanakönnunarfyrirtækið framkvæmdi í Bandaríkjunum og 12 ríkjum Evrópusambandsins.

Spurt var í könnuninni, sem lögð var fyrir bæði karla og konur, hversu stór hluti kvenna hefði sætt kynferðislegri áreitni af einhverjum toga. Bæði karlar og konur vanmátu fjöldann og var munurinn mestur hjá svarendum í Danmörku, Hollandi og Frakklandi en þar nam vanmatið 49, 35 og 34 prósentustigum að því er breska dagblaðið Guardian greinir frá.

Spurningarnar voru hluti af stærri könnun sem mælir bilið milli raunveruleikans og þess hver almenningur telur stöðuna vera.

Í danskri könnun sem gerð var árið 2012 sögðust 80% kvenna hafa orðið fyrir einhvers konar kynferðislegri áreitni eftir 15 ára aldur. Í könnuninni nú töldu karlar hlutfallið vera 31%.

Í Hollandi þar sem Daniel Gatti, stjórnandi konunglegu sinfóníuhljómsveitarinnar, var nýlega rekinn vegna ásakana um kynferðislegt ofbeldi segjast 73% kvenna hafa sætt áreitni. Hollenskir karlar töldu hlutfallið hins vegar vera 38%.

Franskir karlar töldu 41% kvenna hafa sætt kynferðislegri áreitni, en í skoðanakönnun sem gerð var 2012 sögðust 75% kvenna hafa verið áreittar. Ekki er langt síðan myndband af tuttugu og tveggja ára frönskum háskólanema, Marie Laguerre, sem var slegin í andlitið af vegfaranda eftir að hún bað manninn um að hætta að áreita sig, fór á flug á samfélagsmiðlum.

Í kjölfarið lögðu frönsk stjórnvöld fram lagafrumvarp um að þeir sem ger­ast sek­ir um áreitni úti á götu eigi yfir höfði sér sekt. 

Í Bandaríkjunum sýndi könnun sem gerð var fyrr á þessu ári að 81% kvenna hafa sætt kynferðislegri áreitni einhvern tímann á ævinni. Bandarískir karlar töldu hlutfalllið vera 44%

Laura Bates, sem stendur að verkefninu Everyday Sexism Project, þar sem skráðar eru daglegar upplifanir kvenna af kynferðislegu misrétti, segir skort á vilja meðal karla til að viðurkenna umfang kynferðislegrar áreitni eiga sinn þátt í því hversu hægt gangi að vinna á vandanum.

„Þessi könnun sem gerð er ári eftir #MeToo-byltinguna, gefur til kynna að við eigum í raunverulegum vanda með að trúa konum og taka þær alvarlega,“ sagði Bates.

„Að svona margar konur hafi sýnt það hugrekki að deila sögum sem höfðu eyðileggjandi áhrif á þær og komast svo að því að þeim er enn ekki trúað er mjög erfitt að takast á við. Við þurfum á því að halda að lágmarksfjöldi karla rísi upp og taki þátt í að tækla þennan vanda og verða með því hluti af lausninni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert