Skíðuðu niður fjórða hæsta fjall heims

Á fleygiferð niður fjórða hæsta fjall heims.
Á fleygiferð niður fjórða hæsta fjall heims. Ljósmynd/Instagram

Jim Morrison og Hilaree Nelson urðu í haust fyrst allra til að skíða niður Lhotse, fjórða hæsta fjall heims. Það tók þau alls 30 daga að komast á toppinn en aðeins nokkrar klukkustundir að skíða niður, en það var allt þess virði. 

Lhotse, eða Suðurtindur, er fjórða hæsta fjall heims; 8.516 metra hátt, og er það hluti af Everest-fjallgarðinum og tengist Mount Everest í gegnum fjallhrygginn Suður-Col. Fjallið var fyrst klifið árið 1956 af Svisslendingunum Ernst Reiss og Fritz Luchsinger.

Íslendingar ættu að kannast við fjallið en John Snorri Sigurjónsson var fyrstur Íslendinga til að klífa Lhotse í maí 2017.

Það var heiðskírt og léttur andvari þegar Morrison og Nelson komust á topp Lhotse eftir sleitulausa tólf tíma göngu frá þriðju búðum Everest. Eftir að hafa kafað í gegnum snjó og klifið um rúmlega 1.200 metra í grýttum jarðvegi komust þau loks á toppinn og þá var bara eitt eftir: Að skíða niður.

Morrison og Nelson voru alls 30 daga að komast á ...
Morrison og Nelson voru alls 30 daga að komast á toppinn. Þá loksins gátu þau skíðað niður. Ljósmynd/Instagram

Fundu ástina á fimmta fjalli heims

Í mörg ár hefur þetta verið þeirra æðsti draumur, fyrst hvort í sínu lagi reyndar þar sem leiðir þeirra lágu ekki saman fyrr en fyrir þremur árum, þegar þau klifu Makalu, fimmta hæsta fjall heims, á sama tíma.

Nelson kleif í fyrsta skipti fjall sem er hærra en 8.000 metrar árið 2005, þegar hún komst á topp Cho Oyu, sjötta hæsta fjalls heims. Árið 2012 varð hún fyrsta konan til að klífa bæði Mount Everest og Lothse á innan við sólarhring. Þá var enginn snjór á toppi Lothse. „Ég hugsaði: Ertu ekki að grínast? Ef það væri snjór væri gjörsamlega sturlað að skíða niður fjallið!“ segir Nelson í viðtali við skíðatímaritið Powder. Upp frá því hefur Nelson verið með Lhotse á heilanum.

Morrison er mikill frumkvöðull í fjallaskíðamennsku og hefur hann skíðað niður mörg hæstu fjöll heims. Árið 2011 varð hann fyrir miklu áfalli þegar kona hans, 5 ára sonur og 6 ára dóttir, létust í flugslysi. „Líf mitt fór frá því að vera frábært yfir í að vera lokið á einu augnabliki. Ég eyddi mörgum árum í að reyna að finna út hvernig ég ætti að fara að því að lifa lífinu,“ segir hann í viðtali við Powder. 

Svarið fann Morrison þegar hann hitti Nelson í Nepal fyrir þremur árum þegar þau klifu Makalu. „Sex mánuðum síðar urðum við par og núna fæ ég að elda morgunmat fyrir börnin hennar,“ segir hann en Nelson á tvö börn frá fyrra hjónabandi.

Jim Morrison og Hilaree Nelson fundu ástina á fjöllum.
Jim Morrison og Hilaree Nelson fundu ástina á fjöllum. Ljósmynd/Instagram

Morrison og Nelson eru á fimmtugsaldri og lifa draumalífinu saman, ferðast um heiminn, ganga á hæstu fjöll og skíða niður þau og rækta auk þess sambandið á meðan þau sinna ævintýramennskunni.

Ítarlegt viðtal við ofurparið og myndir frá leiðangrinum má finna á vef skíðatímaritsins Powder.

Hópurinn sem gekk á Lhotse í haust.
Hópurinn sem gekk á Lhotse í haust. Ljósmynd/Instagram
Morrison og Nelson kynntust þegar þau klifu Makalu, fimmta hæsta ...
Morrison og Nelson kynntust þegar þau klifu Makalu, fimmta hæsta fjall heims, árið 2015. Ljósmynd/Instagram
mbl.is
HRINGSTIGAR _ HRINGSTIGAR
Hringstigar, úti sem inni. Þvermál 120, 130, 140, 150, 160, 170 cm og sérsmíði í...
VolkswagenPolo 2006 til sölu
Vetrar og sumardekk, 4 dyra, ekinn 179 þ.km. Gott viðhald og smurbók. Verð 240 þ...
STIGAR OG HANDRIÐ ALLAR MÖGULEGAR GERÐIR
Hagstæð verð, sjá meðal annars: http://www.youtube.com/watch?v=73dIQgOl2JQ...
Patrol 2006
Til sölu Nissan Patrol 2006 ekinn 186.000. Einn eigandi, gott viðhald, skoðaður ...