Leita logandi ljósi að blóðgjafa

Zainab Mughal er tveggja ára.
Zainab Mughal er tveggja ára. Ljósmynd/OneBlood

Leit er hafin um heim allan að blóðgjöfum sem gætu bjargað lífi tveggja ára bandarískrar stúlku sem þjáist af krabbameini. Zainab Mughal er í einum fágætasta blóðflokki heims og því er erfitt að veita henni meðferð við hæfi.

Þeir sem standa að baki leitinni að blóðgjöfunum segja að yfir 1.000 manns hafi verið prófaðir en aðeins þrír gjafar hafi leynst í þeim hópi. Læknar segja að þörf sé á sjö til tíu blóðgjöfum.

Fyrr á þessu ári var Zainab greind með taugakímsæxli sem er ágengt og sjaldgæft krabbamein sem aðallega leggst á börn. 

Meðan á meðferðinni stendur mun stúlkan þurfa blóðgjöf en blóð hennar er „gríðarlega sjaldgæft“ því í það vantar mótefnisvaka sem flest fólk er með í sínum rauðu blóðkornum, segja talsmenn samtakanna OneBlood sem fara fyrir leitinni að blóðgjöfunum.

Líklegir gjafar eru þeir sem eru mannfræðilega Pakistanar, Indverjar eða Íranar og eru í blóðflokkunum O eða A. En jafnvel í þessum hópi eru aðeins um 4% sem vantar mótefnisvakann og eru því vænlegir blóðgjafar.

Líkami Zainab mun hafna öllu blóði sem ekki uppfyllir þessi skilyrði. „Þetta er svo sjaldgæft að ég hef í hreinskilni sagt ekki upplifað annað eins á þeim tuttugu árum sem ég hef unnið við þetta,“ segir Frieda Bright, yfirmaður rannsóknarstofu OneBlood, í samtali við BBC.

OneBlood vinnur með blóðbönkum um allan heim að því að finna blóðgjafa í tilfellum þar sem sá sem þarf á blóðinu að halda er með sjaldgæft blóð í æðum sínum.

Raheel Mughal, faðir Zainab litlu, segir hana hafa greinst með meinið í október. Foreldrarnir hafi viljað gefa blóð en blóð þeirra ekki passað og ekki heldur annarra úr fjölskyldunni. 

Blóðgjöfin ein og sér mun ekki lækna Zainab en er hluti af meðferð sem henni er lífsnauðsynlegt að fá. 

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert