Loka Eiffel-turninum vegna mótmæla

Mótmælendur við Sigurbogann í París síðasta laugardag.
Mótmælendur við Sigurbogann í París síðasta laugardag. AFP

Eiffel-turninum og fleiri ferðamannastöðum í París verður lokað á morgun vegna ótta um að upp úr sjóði í mótmælum gulu vestanna svonefndu gegn frönskum stjórnvöldum. 

89.000 lögreglumenn verða á vakt víðs vegar um Frakkland og brynvarðir bílar verða notaðir í höfuðborginni að því er Edouard Philippe, forsætisráðherra landsins, hefur tilkynnt. 

BBC segir lögreglu hafa hvatt verslunareigendur og veitingastaðareigendur við Champs Elysees-breiðgötuna í París að hafa lokað. Nokkur af söfnum borgarinnar hafa einnig ákveðið að loka sínum dyrum.

Síðasta laugardag kom til einna verstu mótmæla sem orðið hafa í borginni í áratugi. Franska ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt að hún muni hætta við áætlun um eldsneytisskatt, sem var upphaflega kveikjan að mótmælunum, en óánægja með stjórnina hefur breiðst út og komið hefur til mótmæla vegna annarra mála.

AFP-fréttastofan hefur eftir embættismanni í innanríkisráðuneytinu að yfirvöld séu að búa sig undir „verulegt“ ofbeldi á laugardag, þar sem von sé á aðgerðarsinnum af bæði hægri og vinstri væng stjórnmálanna til borgarinnar.

Philippe sagði í viðtali við TF1-sjónvarpsstöðina að 8.000 lögreglumenn verði sendir sérstaklega til Parísar, sem og tugir brynvarðra bíla. Þá ítrekaði hann fyrri beiðni sína um að fólk haldi ró sinni. „Við búumst við fólki sem er ekki komið hingað til að mótmæla, heldur til að brjóta og við viljum hafa tækifæri á að gefa þeim ekki lausan tauminn,“ sagði hann.

Áður hefur Philippe sagt að stjórnvöld séu tilbúin að koma enn frekar til móts við mótmælendur, m.a. með því að grípa til aðgerða sem gagnist þeim lægst launuðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert