Telja aðild að EFTA ekki þjóna hagsmunum Breta

David Miliband, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, er einn þeirra sem telja …
David Miliband, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, er einn þeirra sem telja aðild að EFTA-samninginum ekki góðan kost. AFP

Norskir stjórnmálamenn og norsk fyrirtæki hafa hafnað „Norway-plus“ leiðinni líkt og Bretar virðast kalla hugmyndina um aðkomu Bretlands að EFTA samninginum. Breska dagblaðið Guardian fjallar um málið og segir Norðmenn, sem samþykkja þyrftu aðild Bretlands að EFTA-samninginum ekki telja hugmyndina þjóna hagsmunum Noregs eða Bretlands.

Guardian segir þetta áfall fyrir Nick Boles, þingmann Íhaldsflokksins, sem hefur verið talsmaður þess að Bretland fái aðild að EFTA-samninginum. Hugmyndin hefur notið stuðnings nokkurs hóps þingmanna sem leitar nú að varaáætlun, hafni breska þingið í kosningu sinni næsta þriðjudag samninginum sem Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur náð við Evrópusambandið.

David Miliband, fyrrverandi utanríkisráðherra í stjórnartíð Verkamannaflokksins, og Jo Johanson, fyrrverandi háskólamálaráðherra, hafa einnig fordæmt hugmyndina. Segja þeir að með EFTA-aðild sé verið að kasta á brott helsta kostinum við ESB aðild — að Bretar hafi rödd innan ESB, kosningarétt og neitunarvald.  Ráðherrarnir víta hugmyndina í bæklingi sem gefin var út af þeim sem krefjast nú þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngusamningin.

Segir Guardian aðkomu ráðherranna tveggja að umræðunni benda til þess að EFTA-samningurinn gæti orðið að trúverðugri varaáætlun varðandi útgönguna.

Þeir Miliband og Johanson segja hins vegar að erfitt yrði fyrir Bretland að ná samkomulagi um aðild að EFTA-samninginum. Slíkt myndi aukinheldur ekki fela í sér lægri greiðslur til ESB, né heldur myndi EFTA samningurinn veita Bretum heimild til að loka á ferðir hælisleitenda frá löndum ESB. Sagði Johanson í viðtali við BBC að með því yrði Bretland að „þrýstihópa“-þjóð sem „tjaldaði fyrir utan höfuðstöðvar Evrópuþingsins í Brussel.“

Slíkt myndi aðeins auka á þá tilfinningu þeirra sem kusu að ganga úr ESB að þeir hefðu verið sviknir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert