Telja aðild að EFTA ekki þjóna hagsmunum Breta

David Miliband, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, er einn þeirra sem telja ...
David Miliband, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, er einn þeirra sem telja aðild að EFTA-samninginum ekki góðan kost. AFP

Norskir stjórnmálamenn og norsk fyrirtæki hafa hafnað „Norway-plus“ leiðinni líkt og Bretar virðast kalla hugmyndina um aðkomu Bretlands að EFTA samninginum. Breska dagblaðið Guardian fjallar um málið og segir Norðmenn, sem samþykkja þyrftu aðild Bretlands að EFTA-samninginum ekki telja hugmyndina þjóna hagsmunum Noregs eða Bretlands.

Guardian segir þetta áfall fyrir Nick Boles, þingmann Íhaldsflokksins, sem hefur verið talsmaður þess að Bretland fái aðild að EFTA-samninginum. Hugmyndin hefur notið stuðnings nokkurs hóps þingmanna sem leitar nú að varaáætlun, hafni breska þingið í kosningu sinni næsta þriðjudag samninginum sem Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur náð við Evrópusambandið.

David Miliband, fyrrverandi utanríkisráðherra í stjórnartíð Verkamannaflokksins, og Jo Johanson, fyrrverandi háskólamálaráðherra, hafa einnig fordæmt hugmyndina. Segja þeir að með EFTA-aðild sé verið að kasta á brott helsta kostinum við ESB aðild — að Bretar hafi rödd innan ESB, kosningarétt og neitunarvald.  Ráðherrarnir víta hugmyndina í bæklingi sem gefin var út af þeim sem krefjast nú þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngusamningin.

Segir Guardian aðkomu ráðherranna tveggja að umræðunni benda til þess að EFTA-samningurinn gæti orðið að trúverðugri varaáætlun varðandi útgönguna.

Þeir Miliband og Johanson segja hins vegar að erfitt yrði fyrir Bretland að ná samkomulagi um aðild að EFTA-samninginum. Slíkt myndi aukinheldur ekki fela í sér lægri greiðslur til ESB, né heldur myndi EFTA samningurinn veita Bretum heimild til að loka á ferðir hælisleitenda frá löndum ESB. Sagði Johanson í viðtali við BBC að með því yrði Bretland að „þrýstihópa“-þjóð sem „tjaldaði fyrir utan höfuðstöðvar Evrópuþingsins í Brussel.“

Slíkt myndi aðeins auka á þá tilfinningu þeirra sem kusu að ganga úr ESB að þeir hefðu verið sviknir.

mbl.is